Laðaðu til þín það góða

Í gær var létt og hvetjandi dagskrá með fjölmiðlakonunni Sigríði Arnardóttur (Sirrý) í Höfðasal. Fyrri hluti dagskrárinnar var fyrir íbúa og starfsmenn og síðari hlutinn eingöngu fyrir starfsmenn. Dagskráin sem Sirrý nefnir Laðaðu til þín það góða gengur út á samkiptafærni, hamingju og sjálfstraust.

Um 30 íbúar og 40 starfsmenn tóku þátt í dagskránni og fóru allir ánægðir heim.

Laufabrauðsskurður

Í morgun var laufabrauðsskurður á Höfða og tóku allmargir íbúar Höfða þátt í skurðinum. Glöggt mátti sjá að flestir voru þaulvanir þessari list. Svandís Stefánsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir undirbjuggu og stjórnuðu verkinu. Létt var yfir fólki við skurðinn.

Jólamarkaður

S.l. sunnudag héldu starfsmenn Höfða jólamarkað. Þar var selt bakkelsi, sultur, hannyrðavörur og föndurvörur gerðar af starfsmönnum, en undanfarnar vikur hafa verið nokkur föndurkvöld á Höfða. Þá var Ólöf Hjartardóttir íbúi á Höfða með sölubás þar sem hún seldi jólakort og skartgripi sem hún hefur framleitt.

Boðið var upp á vöfflukaffi og þar komu tveir velunnarar Höfða og léku á hljóðfæri fyrir kaffigesti, þær Gyða Bergþórsdóttir á píanó og Fanney Reynisdóttir á harmonikku.

3- 400 manns sóttu þennan jólamarkað sem tókst í alla staði mjög vel.

Kvöldvaka

Hin árlega kvöldvaka þar sem starfsmenn Höfða bjóða íbúum upp á skemmtiatriði og veitingar var haldin í kvöld. Borð svignuðu undan girnilegum kræsingum sem starfsmenn komu með að heiman og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Fyrst sungu og léku tvær ungar stúlkur nokkur lög, síðan komu 15 félagar úr Kór Akraneskirkju og fluttu þjóðlega sýningu um djáknann á Myrká og Miklabæjar Sólveigu með myndum og söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar bæjarlistamanns.  Þá kvað Sigurbjörg Halldórsdóttir rímur og loks var tískusýning frá Litlu búðinni þar sem skemmtinefndin og nokkrir aðrir starfsmenn Höfða voru í hlutverki tískusýningarfólks.


Mikil ánægja var með þessa kvöldvöku sem heppnaðist mjög vel. Skemmtinefndina skipuðu þær Margrét Reimarsdóttir, Ólöf Elva Smáradóttir, Sigrún Jóhannesdóttir, Stína Ósk Gísladóttir og Svandís Stefánsdóttir.

Tilboð opnuð

Í morgun voru opnuð tilboð í endurnýjun hjúkrunardeildar. 5 tilboð bárust:

 

GS Import ehf. Akranesi                     70.498.498

Sjammi ehf. Akranesi                         62.847.181

Alefli ehf. Mosfellsbæ                                   60.566.298

Trésmiðjan Akur ehf. Akranesi          68.270.413

Sveinbjörn Sigurðsson hf. Reykjavík  66.228.100

 

Kostnaðaráætlun hönnuða                64.898.956

 

Tilboðin verða nú yfirfarin og síðan gerður samningur við verktaka. Reiknað er með að verkið hefjist 12.nóvember.