Fyrsta skóflustunga að hjúkrunarálmu

 

 

S.l. föstudag tók  Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra  fyrstu skóflustunguna að nýrri hjúkrunarálmu sem kemur norður úr elsta hluta Höfða. Áður hafði Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða ávarpað viðstadda og lýst aðdraganda þessarar framkvæmdar. Með tilkomu þessarar álmu verða fjölbýli úr sögunni á Höfða að undanskildum hjóníbúðum.

 

Í för með ráðherra var starfslið Velferðarráðuneytisins ásamt mökum, alls um 100 manns. Viðstaddir þessa athöfn voru einnig fulltrúar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar, stjórnarmenn í Höfða, fulltrúar verktaka, arkitekt, eftirlitsmenn o.fl.

 

Að athöfn lokinni var boðið upp á veitingar í Höfðasal. Þar kynntu Guðjón Guðmundsson og Margrét A.Guðmundsdóttir starfsemi Höfða og ráðherra þakkaði góðar móttökur.

Aðstandendafundur

 

 

Í gær var haldinn fundur með aðstandendum þeirra sem búa á Höfða. Á fundinum kynnti Guðjón Guðmundsson nýafstaðnar og væntanlegar framkvæmdir við Höfða, Ragnheiður Guðmundsdóttir kynnti starf djákna, Helga Jónsdóttir starfsemi dagdeildar, Haukur S.Ingibjargarson starfsemi mötuneytis og Bylgja Kristófersdóttir starfsemi hjúkrunardeildar. Fundarstjóri var Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri.

 

Að loknum þessum kynningum voru svo umræður og fyrirspurnir. Þá fór fram skrifleg könnun meðal fundarmanna um hvað þeim fyndist um þjónustuna á Höfða og kom fram almenn ánægja með hana. Einnig var beðið um ábendingar varðandi aðstöðu og þjónustu og komu fram ýmsar ágætar hugmyndir.

 

Fundurinn var mjög vel sóttur.

Harmonikkuball

 

 

Í dag var harmonikkuball á Höfða. Jón Heiðar Magnússon lék gömlu góðu lögin á nikkuna við góðar undirtektir Höfðafólks.

40-50 manns mættu á ballið og skemmtu sér vel.

Frábær Þýskalandsferð

 

 

Í fyrradag komu 56 starfsmenn Höfða heim úr 5 daga fræðslu- og skemmtiferð til Þýskalands. Gist var í bænum Oberkirch í Svartaskógi. Á föstudag heimsótti hópurinn hjúkrunarheimilið Das Katharinenstift í Freiborg, en á heimilinu eru 129 íbúar. Stjórnendur heimilisins tóku mjög vel á móti hópnum, kynntu starfsemi heimilisins, sýndi aðstöðuna, svöruðu fjölmörgum fyrirspurnum og buðu að lokum upp á kartöflusúpu sem virðist vera mjög vinsæl á þessum slóðum. Þessi heimsókn var mjög gagnleg og fróðlegt að sjá hvernig að málum er staðið í öðrum löndum.

 

Á laugardag var farið í skoðunarferðar til Strasbourg í Frakklandi þar sem gengið var um gamla borgarhlutann og farið í siglingu á ánni Ill. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og margt til gamans gert. Á sunnudag var svo ekið um vínræktarhéruðin í Alsace og komið við í tveimur fallegum smábæjum. Á heimleiðinni varð það óhapp að kviknaði í rútunni og varð hópurinn að yfirgefa hana og bíða í 2 tíma eftir annari rútu. Tóku því allir með bros á vör og göntuðust með að Höfðafólk og rútur ættu ekki samleið, en í síðustu utanlandsferð lenti hópurinn í svipaðri töf þegar rúta ók inn í skriðu á Kjalarnesi í upphafi ferðar.

 

Á mánudag var svo haldið heim á leið og lent í Keflavík síðdegis. Voru allir sammála um að ferðin hefði verið frábær í alla staði. Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Unnur Guðmundsdóttir sáu um undirbúning og skipulagningu ferðarinnar. Guðrún Björnsdóttir og Hildur Bernódusdóttir  stjórnuðu fjáröflun sem starfsmenn tóku þátt í af miklum krafti mánuðum saman. Farið var með Bændaferðum sem lögðu til fararstjóra, Þórhall Vilhjálmsson.

 

Veðrið var einstaklega gott í þessari frábæru ferð, 20-30 stiga hiti og sól.