Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. Hátt í 50 manns, íbúar Höfða og dagdeildarfólk, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og farið um Melasveit upp Norðurárdal að Bifröst og þaðan um Stafholtstungur að Deildartunguhver og síðan að Reykholti þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð í hótelinu. Eftir kaffi var síðan ekið um Skorradal yfir Geldingadraga og yfir í Hvalfjörð þar sem Hvalstöðin var skoðuð. Kristján Loftsson forstjóri Hvals lýsti starfsemi fyrirtækisins, en fyrsti hvalurinn á þessari vertíð var væntanlegur hálftíma seinna. Síðan var haldið heim á leið og komið að Höfða kl. 18,30.
Ferðaveður var frábært, logn, sólarlaust og 17-19 stiga hiti. Fararkosturinn var sérútbúin hjólastólarúta frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans einstaklega fróðleg og skemmtileg.
Ferðalangarnir voru ánægðir með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.