Falleg gjöf

Hjónin Ármann Gunnarsson og Helga Sólveig Bjarnadóttir á Steinsstöðum gáfu Höfða s.l. föstudag málverk eftir Bjarna Þór Bjarnason til minningar um foreldra Ármanns, hjónin Guðríði Guðmundsdóttur og Gunnar L.Gunnarsson á Steinsstöðum, en þau voru síðustu bændurnir á Akranesi.

 

Af þessu tilefni komu systkinin 8 frá Steinsstöðum ásamt mökum og börnum og tengdabörnum Ármanns og Helgu saman á Höfða þar sem Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri og Anton Ottesen varaformaður stjórnar Höfða veittu þessari fallegu gjöf viðtöku.

Laus störf á Höfða

Höfði leitar eftir starfsmönnum í eftirtaldar stöður frá 1.september n.k.:

 

Aðstoðarmaður iðjuþjálfa, starfshlutfall 80%.

Starfsmaður í umönnun, starfshlutfall 60%.

Sjúkraliði í afleysingar, starfshlutfall 60%.

 

Umsóknareyðublöð á skrifstofu og hér á heimasíðunni (heimilið – starfsmenn – umsóknareyðublað)

 

Upplýsingar gefa Sigurbjörg Halldórsdóttir hjúkrunarforstjóri, sími 433-4327, og Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi, sími 433-4316.

Sumarferð

Í gær var hin árlega sumarferð Höfðafólks. Um 40 manns, íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsanna, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið að Sundahöfn í Reykjavík og skoðuð hin mikla uppbygging þar. Síðan var ekið til Grindavíkur og að Bláa lóninu, en þaðan haldið til Keflavíkur þar sem drukkið var kaffi í veitingahúsinu Ránni. Síðan var ekið um Garð að Garðskagavita og þaðan til Sandgerðis og síðan sem leið lá heim og komið til Akraness kl. 18,45.

 

Björn Ingi Finsen var leiðsögumaður í þessari ferð og var leiðsögn hans einstaklega fróðleg og skemmtileg.

 

Veðrið lék við ferðalangana – logn, sól og 18-20 stiga hiti. Almenn ánægja var með ferðina sem tókst í alla staði mjög vel.

Heilbrigðisráðherra heimsækir Höfða

Nýr heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heimsótti Höfða s.l. laugardag. Ráðherrann ræddi við framkvæmdastjóra Höfða um rekstur og framtíðaráætlanir heimilisins.

 

Að fundi loknum gaf ráðherrann sér góðan tíma til að rölta um húsið og heilsa upp á íbúa Höfða. Var honum afskaplega vel tekið og sumir gaukuðu að honum góðum ráðum um hvað væri brýnasta verkefni nýs heilbrigðisráðherra.