Vöfflukaffi

Í dag komu saman í iðjuþjálfun 6 konur af hjúkrunardeild og bökuðu vöfflur með Ingibjörgu iðjuþjálfa. Síðan var sest að veitingum, drukkið kaffi með rjómavöfflum og spjallað um heima og geyma.

Svo mikill var krafturinn í bakstrinum að brunavarnakerfi fór í gang. Húsverðir brugðust skjótt við og stoppuðu baksturinn í miðjum klíðum.

Góðir gestir frá grænlandi

Góðir gestir frá Grænlandi

Í gær heimsótti Höfða rúmlega 20 manna hópur frá Qagortog, vinabæ Akraness í Grænlandi. Hópurinn skoðaði heimilið og lýsti mikilli aðdáun á aðbúnaði öllum.

Að lokinni skoðun sungu Grænlendingarnir og dönsuðu þjóðdansa í samkomusal Höfða. Ung stúlka lék á fiðlu og kona á níræðisaldri lék á harmonikku. Undirtektir íbúa Höfða voru frábærar og klöppuðu þeir listamennina upp aftur og aftur.

Að lokum bauð Höfði gestunum upp á kaffi og meðlæti.

Einar Oddur heimsækir Höfða

Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, heimsótti Höfða í gær. Einar Oddur ræddi við Benedikt Jónmundsson formann stjórnar Höfða og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóra um stöðu Höfða og starfsemi heimilisins.

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar

Nýkjörin stjórn Höfða hélt sinn fyrsta fund í gær. Samkvæmt nýrri skipulagsskrá fyrir Höfða tilnefnir bæjarstjórn Akraness formann stjórnar og tvo aðra stjórnarmenn en Hvalfjarðarsveit einn stjórnarmann.

Formaður stjórnar er Benedikt Jónmundsson, aðrir fulltrúar tilnefndir af bæjarstjórn Akraness Karen Jónsdóttir og Rún Halldórsdóttir, fulltrúi Hvalfjarðarsveitar er Anton Ottesen.
Á þessum fyrsta fundi var Anton kosinn varaformaður og Karen ritari.

Sumarferð.

Í gær var hin árlega sumarferð Höfðafólks. Um 50 íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsa tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið austur fyrir fjall. Á Kambabrún kom Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra í bílinn og var leiðsögumaður austan fjalls. Ekið var um Selfoss, Stokkseyri, Eyrarbakka, Ölfus og Hveragerði og drukkið kaffi í hinu glæsilega veitingahúsi Hafið bláa við ósa Ölfusár. Leiðsögn Guðna var einstaklega fróðleg og skemmtileg.

Guðni og Margrét kona hans buðu síðan öllum hópnum upp á veitingar á sólpallinum við heimili sitt á Selfossi þar sem Margrét A.Guðmundsdóttir afhenti Margréti konu Guðna lítinn þakklætisvott fyrir höfðinglegar móttökur og Guðjón Guðmundsson afhenti Guðna áletraða afsteypu af Grettistaki í þakklætisskyni fyrir framlag hans til að gera þessa ferð ógleymanlega. Síðan var ekið heim um hina fögru Þingvallaleið og Mosfellsdal og komið að Höfða kl. 19,20

Veðrið lék við okkur, blæjalogn, sólarlaust og hlýtt. Almenn ánægja var með ferðina, sem tókst í alla staði mjög vel.