Vel heppnuð Þýskalandsferð

 

Í gær komu 57 starfsmenn Höfða heim úr 5 daga fræðslu- og skemmtiferð til Þýskalands. Ferðin byrjaði ekki vel því rútan sem flutti okkur suður á flugvöll ók inn í skriðu á Kjalarnesi með þeim afleiðingum að þrjár konur meiddust nokkuð. Ein þeirra var flutt á slysavarðstofu og var ekki ferðafær. Hún varð því eftir heima sem öllum þótti mjög leitt.

 

Eftir þetta óhapp gekk ferðin eins og í sögu. Veðrið í Þýskalandi var frábært, 20-25 stiga hiti alla dagana. Ferðin var mjög vel skipulögð og eitthvað um að vera frá morgni til kvölds. Á föstudaginn var heimsótt dvalar- og hjúkrunarheimilið St.Barbara í Koblens, en þar eru álíka margir íbúar og á Höfða. Stjórnendur St.Barbara tóku mjög vel á móti Höfðafólki, kynntu starfsemi heimilisins, sýndu aðstöðuna og buðu loks upp á mat. Þetta er stórglæsileg stofnun og var heimsóknin þangað mjög fróðleg og skemmtileg.

 

Á laugardal og sunnudag var síðan ekið um Móseldal og Rínardal og stoppað í borgum og bæjum á svæðinu, en þarna er afskaplega fallegt og vinalegt umhverfi. Farið var með Bændaferðum sem lögðu til fararstjóra, Ingu Ragnarsdóttur, sem stóð sig frábærlega og féll vel inn í hópinn. Sigurbjörg Ragnarsdóttir sá um undirbúning og skipulagningu ferðarinnar fyrir starfsmannafélagið og fjölmargir starfsmenn komu að fjáröflun og undirbúningi. Eiga þau öll þakkir skildar fyrir sitt framlag til þessarar stórskemmtilegu ferðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *