Í dag heimsóttu Höfða góðir gestir, 3 stúlkur úr skátaflokknum Meyjarnar, þær Lilja RutBjarnadóttir, Sigríður Lóa Björnsdóttir og Erla Guðmundsdóttir. Þær héldu bingó fyrir heimilisfólk og sungu nokkur lög.
Bingóvinningarnir voru sérlega glæsilegir, en þær stöllur höfðu fengið þá gefna hjá nokkrum verslunum á Akranesi.
Mikil þátttaka var í bingóinu og almenn ánægja með heimsókn þessara góðu gesta.
Í gær var haldinn fundur með aðstandendum íbúa á Höfða. Þar sagði Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri frá rekstri Höfða, starfsmannahaldi, fyrirhuguðum framkvæmdum o.fl. og Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri ræddu um hjúkrun og aðhlynningu og sagði frá tengiliðakerfi sem tekur gildi í þessum mánuði.
Þau Guðjón, Helga og deildarstjórarnir Sólveig Kristinsdóttir, Sigrún Valgarðsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir sátu síðan fyrir svörum og tóku þátt í umræðum með fundargestum.
Fundurinn var mjög vel sóttur. Boðið var upp á kaffi, kleinur og heimabakað brauð.
Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs og stjórn Höfða, alls um 170 manns. Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Borin var fram þríréttuð veislumáltíð sem samanstóð af humarsúpu, lambafille og desert. Var almenn ánægja með þennan frábæra mat sem Haukur bryti og hans fólk reiddi fram.
Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns og Kjarnafæðis.
Guðrún Björnsdóttir, Ólöf Auður Böðvarsdóttir og Guðrún Sigurbjörnsdóttir voru með ÚTVARP HÖFÐA, þar sem fluttar voru fréttir og óskalög, Guðrún Sigurbjörnsdóttir lék Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem söng ástaróð til framkvæmdastjóra, sonardóttir Sigrúnar Halldórsdóttur og hennar dansherra voru með frábæra danssýningu, Guðni Ágústsson ávarpaði samkomuna og fór á kostum og Hulda Gestsdóttir söng nokkur lög.
Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.
Höfðagleðin þótti takast sérlega vel að þessu sinni og var mikil ánægja var með veitingar, skemmtiatriði og músik.
ERNIR:Magnús Guðmundsson, Bjarni Guðmundsson, Lára Arnfinnsdóttir
Í þriggja liða úrslitum kepptu Fálkar, Rúnínur og Skýin. Þá kom Þuríður Jónsdóttir inn í lið Fálkanna í forföllum Guðnýjar og Svava Símonardóttir í lið Skýjanna í forföllum Önnu.
Úrslit urðu þau að SKÝIN sigruðu, ÚLFAR lentu í 2.sæti og FÁLKAR í 3.sæti.
Edda Guðmundsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir voru dómarar og stjórnuðu mótinu af röggsemi og í léttum dúr. Mikill fjöldi áhorfenda var á öllum leikjunum.
Verðlaunaafhending fór fram í síðdegiskaffi að móti loknu.
Einar Jónsson frá Drageyri, sem flutti á Höfða í síðasta mánuði, færði heimilinu að gjöf í gær uppstoppaðan ferhyrndan haus af fjögurra vetra hrúti. Þessi myndarlegi hrútshaus mun prýða ganginn inn af anddyri Höfða og blasa við öllum sem inn koma.
Þess má geta að fyrir nokkrum árum átti Höfði samskonar haus sem hékk á sama stað á ganginum, en var stolið. Þótti það mikil bíræfni. Sagt var frá þjófnaðinum í fjölmiðlum en ekki skilaði hausinn sér.
Ekki ætti að vera hætta á að nýja hausnum verði stolið. Bæði verður hann rammlega festur og eins eru komnar öryggismyndavélar á ganginn sem sýna allar mannaferðir.
Í gær var haldin tónlistarguðsþjónusta á Höfða. Ragnar Bjarnason söng nokkur af sínum vinsælustu lögum við undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar. Milli laga talaði sr. Eðvarð Ingólfsson og lagði út af textum laganna.
Þessi tónlistarguðsþjónusta heppnaðist afar vel og íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn. Að lokum þakkaði framkvæmdastjóri sóknarpresti og listamönnunum fyrir þessa skemmtilegu og hátíðlegu stund.
Á aðfangadagsmorgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í samkomusal. Með henni voru afkomendur hennar sem sungu nokkra jólasálma og léku undir á gítar.
Á annan jóladag var hátíðarmessa. Sr. Eðvarð Ingólfsson prédikaði og kór Akraneskirkju söng við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.Ólöf Ásgeirsdóttir söng einsöng.
Á gamlársdagsmorgun verður svo helgistund djákna. Þar mun kirkjukór Saurbæjarprestakalls syngja.
Í gær var haldið jólaball fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna Höfða. Andrea Guðjónsdóttir söng jólalögin við undirleik Jólabandsins og jólasveinarnir Bjúgnakrækir og Giljagaur komu í heimsólkn og færðu smáfólkinu gjafir.
boðið var upp á smákökur og gos.
Jólaballið var mjög vel heppnað og gríðarlega vel sótt.
Í haust flutti sá kunni veiði- og fluguhnýtingamaður Kjartan Guðmundsson á Höfða.
Fljótlega kom Kjartan sér upp fluguhnýtingaraðstöðu í kjallara Höfða. Í tilefni af því bjó hann til nýja flugu sem hann nefnir HÖFÐI. Flugan hefur þegar slegið í gegn og Kjartan framleiðir hana eftir pöntunum.
Eins og sjá má á myndinni er þetta hin fallegasta fluga og enginn vafi á að HÖFÐI mun leggja margan laxinn á komandi sumri.
Í dag heimsóttu Höfða tveir nemendur Grundaskóla, Matthías Ingi Sævarsson og Snær Halldórsson, og færðu heimilinu fallegan handunninn borðdúk gerðan af nemendum skólans.
Nemendur Grundaskóla hafa lengi haft þann góða sið að heimsækja Höfða fyrir hver jól og færa heimilinu hluti gerða af nemendum. Þessir fallegu munir prýða Höfða.
Margrét A.Guðmundsdóttir húsmóðir á Höfða veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði strákunum þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.