Dansað á Höfða

Í dag var dansiball í samkomusalnum. Jón Heiðar lék fyrir dansi. Létt var yfir ballinu og mikið dansað.

 

Góðir grannar í heimsókn

Í dag heimsóttu Höfða 33 eldri borgarar úr Borgarfirði. Gestirnir skoðuðu starfsemi Höfða og litu inn í nokkrar íbúðir. Margir íbúar Höfða þekktu einhvern gestanna og urðu fagnaðarfundir og gömul kynni rifjuð upp.

 

Að lokinni skoðunarferð um húsið þáðu gestirnir veitingar í samkomusal. Þar sagði framkvæmdastjóri frá uppbyggingu og starfsemi Höfða og Davíð Pétursson á Grund

þakkaði fyrir hönd hópsins góðar móttökur og færði heimilinu að gjöf geisladisk með

borgfirskum lögum.

Framboðskynning Framsóknarflokksins

Síðasta framboðskynningin á Höfða fyrir þingkosningarnar næstkomandi laugardag var í dag. Þá kom Guðmundur Steingrímsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, og kynnti stefnumál flokksins fyrir Höfðafólki.

 

Hann lék einnig nokkur lög á harmonikku við góðar undirtektir.

Framboðskynning Sjálfstæðisflokksins

Fyrsta framboðskynningin á Höfða fyrir komandi þingkosningar var í morgun. Þá heimsótti nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, Ásbjörn Óttarsson, Höfða og kynnti sér starfsemi heimilisins, ræddi við íbúa og starfsmenn og kynnti stefnumál síns flokks í komandi kosningum.

Vel heppnuð samverustund

S.l. föstudag héldu íbúar Höfða og dagdeildarfólk samverustund í samkomusalnum. Þar flutti Kjartan Guðmundsson draugasögur og einnig frumortar gamanvísur, Guðrún Adolfsdóttir lék nokkur lög á píanó.

 

Skarphéðinn Árnason fór með kveðskap og Guðjónína Sigurðardóttir stjórnaði fjöldasöng og lék undir á gítar.

 

Þessi samverustund tókst mjög vel. Samkomusalurinn var troðfullur og skemmti fólk sér vel og höfðu flestir á orði að þetta þyrftum við að gera fljótlega aftur.