Ball

Það var fjör á Höfða í dag þegar hljómsveitin Bjórbandið lék fyrir dansi síðdegis. Hljómsveitina skipa Árni Aðalsteinsson, Baldur Árnason, Helgi Jensson og Smári Guðbjartsson. Mikið var dansað og stuð á mannskapnum, enda leikur hljómsveitin gömlu góðu lögin sem íbúar Höfða þekkja og hafa ánægju af.

 

Rauðmagaveisla

 

Friðrik Magnússon útgerðarmaður og skipstjóri á Keili 2. AK gaf Höfða hátt á annað hundrað rauðmaga sem hann fékk í grásleppunetin í gær. Haukur kokkur og Skarphéðinn Árnason íbúi á Höfða stóðu á bryggjunni og gerðu að rauðmaganum í norðan næðingi og frosti, en Skarphéðinn er gamalreyndur hrognkelsaveiðimaður.

 

Það verður því rauðmagaveisla á Höfða í hádeginu í dag.

Mottukeppni

Þrír herramenn á dagdeild Höfða, Vignir, Ármann og Tómas, tóku þátt í mottukeppni Krabbameinsfélags Íslands sem staðið hefur yfir í þessum mánuði. Ekki verður annað sagt en að vel hafi tekist til hjá þeim félögum.

 

 

Passíusálmalestur

Á föstudaginn langa mun starfsfólk Höfða lesa Passíusálmana í Akraneskirkju. Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni stjórnar athöfninni sem hefst kl. 13,00. Með henni lesa Guðrún Björnsdóttir, Helga Atladóttir, Margrét A.Guðmundsdóttir, Rakel Gísladóttir, Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Þóranna Kjartansdóttir.

Seltirningar heimsækja Höfða

Í dag heimsótti Höfða 39 manna hópur úr félagsstarfi eldri borgara á Seltjarnarnesi. Með þeim í för var bæjarstjórinn Ásgerður Halldórsdóttir.

Margrét A.Guðmundsdóttir og Helga Jónsdóttir sýndu gestunum starfsemi dagdeildar og annað sem í gangi er á heimilinu.

 

Að því loknu var gestunum boðið upp á kaffi og meðlæti. Þar ávarpaði Guðjón Guðmundsson gestina og sagði frá uppbyggingu Höfða og starfsemi.

 

Gestirnir létu í ljós mikla hrifningu af heimilinu. Héðan lá leið þeirra niður í bæ þar sem þau ætluðu að líta inn á fleiri staði.

Yngsta kynslóðin heimsækir Höfða

Börn úr leikskólanum Akraseli voru í hjólatúr og litu við á Höfða í leiðinni. Þau tóku lagið, prófuðu lyfturnar og skoðuðu það sem fyrir augu bar.

Það er alltaf upplífgandi þegar yngsta kynslóðið kemur í húsið.

Handavinnuleiðbeinendur í heimsókn

S.l. laugardag heimsóttu Höfða 42 konur úr Félagi handavinnuleiðbeinenda. Komu þær víða af landinu. Helga Jónsdóttir deildarstjóri dagdeildar tók á móti þeim og sagði frá starfseminni á Höfða og bauð þeim upp á kaffi og konfekt.

Aðstandendafundur

Í gær var haldinn fundur með aðstandendum íbúa á Höfða. Þar sagði Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri frá yfirstandandi og fyrirhuguðum framkvæmdum við endurbætur og stækkun Höfða, Reynir Þorsteinsson læknir ræddi um læknisþjónustu á Höfða og lífsskrá, Margrét A.Guðmundsdóttir forstöðukona lýsti félagsstarfi og afþreyingu á heimilinu og Elísabet Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari sagði frá sjúkraþjálfun á Höfða. Frummælendum sátu síðan fyir svörum ásamt Helgu Atladóttur hjúkrunarforstjóra sem var fundarstjóri.

 

Fundurinn var mjög vel sóttur. Boðið var upp á kaffi og meðlæti að lokinni dagskrá.

Messa á æskulýðsdegi

 

Í gær var guðsþjónusta á Höfða á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar. Af því tilefni sungu ungmennakórar Akraneskirkju undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar. Prestur var sr. Eðvarð Ingólfsson.