Náttúrutónleikar

 

 

Í gær héldu Rannveig Káradóttir sópransöngkona og Birna Hallgrímsdóttir píanóleikari tónleika í Höfðasal. Tónleikana nefndu þær Náttúran, en hvert lag á efnisskránni var tileinkað ákveðnum hlut eða fyrirbæri sem finnst í eða tengist íslenskri náttúru.

 

Tónleikarnir voru vel sóttir og undirtektir góðar.

Tónleikar Klarinettukvartetts

 

 

Klarinettukvartett frá Tónlistarskóla Akraness hélt tónleika í Höfðasal í gær. Kvartettinn skipa Bjarney Guðbjörnsdóttir, Berglind Ósk Jóhannesdóttir, Bergþóra Sveinsdóttir og Sonja Bjarnadóttir. Stjórnandi er Halldór Sighvatsson.

 

Höfðafólk fjölmennti á tónleikana og þakkaði flytendum með lófataki.

Borgnesingar heimsækja Höfða

 

 

Starfsmenn Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi heimsóttu Höfða í dag. Þeir skoðuðu heimilið í fylgd Margrétar A.Guðmundsdóttur og Eddu Guðmundsdóttur. Að því loknu var sest yfir kaffibolla í Höfðasal þar sem Guðjón Guðmundsson og Helga Atladóttir sögðu frá starfsemi Höfða og framkvæmdum.

 

framkvæmdastjóri DAB þakkaði fyrir hönd gestanna fyrir móttökurnar. Að heimsókn lokinni héldu þessi góðu gestir upp í Hvalfjarðarsveit þar sem þeirra beið dagskrá fram eftir kvöldi.

Gissur Páll syngur á Höfða

 

 

Í dag söng stórtenórinn Gissur Páll Gissurarson í Höfðasalnum við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar. Gissur Páll söng góðu gömlu íslensku lögin og endaði á Hamraborginni sem alltaf slær í gegn. Hann tók síðan aukalög eftir kröftugt uppklapp Höfðafólks sem fjölmennti og sjaldan hefur verið klappað meira á Höfða.

Tónleikar Grundartangakórsins

 

 

 

 

Grundartangakórinn hélt tónleika á Höfða 1.maí. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason. Undirleik annaðist Flosi Einarsson.

 

 

Söngurinn gerði stormandi lukku hjá Höfðafólki sem fjölmennti og skemmti sér konunglega.

Fræðsludagur

 

 

Í dag var fræðsludagur starfsmanna Höfða frá kl. 12,30-16,00. Magna Fríður Birnir hjúkrunarforstjóri á heilsustofnun í Hveragerði ræddi um streitu, slökun og eflingu sjálfsímyndar og Laura Scheving Thorsteinsson hjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu ræddi um hamingju í starfi.

 

Þessi fræðsla tókst mjög vel og báðir fyrirlesarar settu mál sitt fram á skýran hátt og jafnframt skemmtilega og var mikið hlegið, en um 50 starfsmenn tóku þátt í þessum fræðsludegi.

Hátíðarguðsþjónusta

Í gær, á annan páskadag, var hátíðarguðsþjónusta í Höfðasalnum. Sr. Eðvarð Ingólfsson prédikaði og Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni á Höfða þjónaði fyrir altari. Kór Akraneskirkju söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Guðsþjónustan var mjög vel sótt.  Þetta var fyrsta guðsþjónustan í nýja salnum og nóg pláss fyrir alla, en oft var ansi þröngt í gamla salnum við slíkar athafnir.

Tónleikar

 

 

Kór Akraneskirkju hélt tónleika í nýja Höfðasalnum s.l. laugardag undir stjórn Sveins Arnar Sæmundssonar. Tónleikarnir voru mjög vel sóttir og undirtektir góðar.

 

Að sögn kórstjóra og söngfólks er mjög góður hljómburður í nýja salnum.

Höfðagleði

 

 

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs og stjórn Höfða.

 

Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur kokkur og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram.

 

Guðjón setti skemmtunina og bauð fólk velkomið í nýja Höfðasalinn sem var tekinn í notkun þetta kvöld. Veislustjóri var Anton Ottesen og kryddaði hann kynningu atriða með smellnum gamansögum. Adda fór með gamanmál. Ræðumaður kvöldsins var Halldór Blöndal. Loks söng bæjarlistamaðurinn Hanna Þóra Guðbrandsdóttir nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns og Kjarnafæðis.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar.

 

Um 170 manns tóku þátt í Höfðagleðinni sem tókst vel að vanda.

Samkomusalurinn tilbúinn

 

 

Vegna framkvæmda við stækkun þjónusturýma hefur samkomusalur Höfða verið lokaður frá því í maí í fyrra.  Hefur því allt félagsstarf farið fram á göngum hússins s.l. 10 mánuði.

 

 

Nú er framkvæmdum við nýja samkomusalinn lokið og er hann hinn glæsilegasti og mun stærri en gamli salurinn. Salurinn verður tekinn í notkun í kvöld þegar hin árlega Höfðagleði verður haldin.

 

 

 

Höfði hefur eignast nýtt málverk Bjarna Þórs Bjarnasonar og prýðir það salinn. Verkið nefnir hann SAGAN ÖLL og er af helstu viðburðum og atvinnulífi Hvalfjarðar í gegnum tíðina. Yfir öllu vakir svo Hallgrímur Pétursson með passíusálmana í hendi.