Jólaball

Í dag var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var troðfullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.


Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12,45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.


Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11,30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.


Óskum öllum landsmönnum gleðilegrar jólahátíðar.

Tónleikar

Mikið tónlistarlíf hefur verið á Höfða á aðventunni. Nemendur úr Tónlistarskóla Akraness héltu tónleika í Höfðasala í síðustu viku. Kór eldri borgara var með tónleika sl. þriðjudag og seinnipartinn í gær var Grundartangakórinn með tónleika í Höfðasal.

Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.

Aðventan gengur í garð

Síðastliðinn föstudag var hið árlega jólahlaðborð Höfða haldið og komu fjölmargir aðstandendur og borðuðu með sínu fólki.   Í framhaldi af jólahlaðborðinu var hin síungi Þorvaldur Halldórsson með tónleika fyrir Höfðafólk sem endaði með dansi.  Helgin endaði svo með aðventustund á sunnudag sem var í umsjón Séra Eðvarðs Ingólfssonar.  Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.

Ingibjörg Pálmadóttir heimsækir Höfða

Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi formaður Hjálparstarfs kirkjunnar heimsótti Höfða í gær og rabbaði við Höfðafólk um ferð sína til Afríku fyrr árinu á vegum hjálparstarfsins  í fullum Höfðasal. Var gerður góður rómur að spjalli Ingibjargar sem fór á kostum að vanda með léttleika sínum.

Jólamarkaður

S.l. laugardag héldu starfsmenn Höfða jólamarkað. Þar var selt bakkelsi, sultur, hannyrðavörur og föndurvörur gerðar af starfsmönnum, en undanfarnar vikur hafa verið nokkur föndurkvöld á Höfða. Þá var Ólöf Hjartardóttir og Sigmundur Hansen íbúar á Höfða með sölubás þar sem þau seldu eigið handverk.

 

Samhliða jólamarkaðnum var boðið upp á vöfflukaffi.

 

3- 400 manns sóttu þennan jólamarkað sem tókst í alla staði mjög vel.

Vöfflukaffi og markaður !

Starfsmenn og íbúar Höfða halda markað og vöfflukaffi  laugardaginn 16. nóvember í Höfðasal frá kl. 14.00 til 16.00.


Vöfflukaffi-handverk-bakkelsi og fleira.


Einnig boðið upp á stutta Bowenmeðferð.


Allir velkomnir.

Kvöldvaka

Hin árlega kvöldvaka þar sem starfsmenn Höfða bjóða íbúum upp á skemmtiatriði og veitingar var haldin í gærkvöldi. Borð svignuðu undan girnilegum kræsingum sem starfsmenn komu með að heiman og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Fyrst dönsuðu nokkur pör úr Dansstúdíói Írisar, síðan spilaði Emil Þór á gítar og Kristín Ragnars starfsmaður á Höfða spilaði á fiðlu. Að lokum sungu og spiluðu Samúel Þorsteinsson og Elva M. Ingvadóttir nokkur lög við góðar undirtektir.
 
Mikil ánægja var með þessa kvöldvöku sem heppnaðist mjög vel. Skemmtinefndina skipuðu þær Elísabet Pálsdóttir,Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir, Halla Ingólfsdóttir, Lára Bogey Finnbogadóttir og Ingibjörg Huld Gísladóttir.

Sláturgerð

Í vikunni hafa íbúar Höfða staðið í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 80 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg og augljóst að margir þeirra sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

Létt var yfir fólki við sláturgerðina og augljóst að allir höfðu af þessu gaman. Fyrsta sláturmáltíðin var framreitt á miðvikudaginn, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir