Gjöf frá Sambandi borgfirskra kvenna

IMG_1987
Heiðrún Sveinbjörnsdóttir, Gerður K. Guðnadóttir, Valgerður Björnsdóttir, Kjartan Kjartansson og Sigurlín Gunnarsdóttir

 

 

 

 

 

 

Fulltrúar Sambands borgfirskra kvenna komur færandi hendi til okkar á Höfða í gær.

Þær Valgerður Björnsdóttir formaður, Gerður K. Guðnadóttir gjaldkeri og Heiðrún Sveinbjörnsdóttir meðstjórnandi færðu Höfða að gjöf gjafabréf og er andvirði þess ætlað til kaupa á búnaði sem nýtist heimilisfólki á Höfða.  Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri og Sigurlín Gunnarsdóttir húsmóðir veittu styrknum móttöku og þökkuðu fyrir höfðinglega gjöf sem mun nýtast vel á Höfða.

 

Auglýsing

Hjúkrunarforstjóri

Hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfði á Akranesi auglýsir stöðu hjúkrunarforstjóra lausa til umsóknar.

Á Höfða eru 75 íbúar, 56 í hjúkrunarrýmum og 19 í dvalarrýmum. Nánari upplýsingar um heimilið er hér á heimsíðunni.

Hjúkrunarforstjóri hefur faglega forustu og ábyrgð á sviði hjúkrunar og umönnunar á heimilinu.  Stjórnar faglegri þróun, rekstri og starfsmannahaldi heimilisins á sviði hjúkrunar og umönnunar.

Menntunar- og hæfnikröfur:

Gerð er krafa um íslenskt hjúkrunarleyfi.

Framhaldsmenntun í stjórnun og rekstri æskileg.

Góð tölvukunnátta áskilin.

Reynsla og þekking á rekstri og stjórnun á sviði öldrunarmála er æskileg.

Framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum er áskilin sem og hæfni til að vinna sjálfstætt og skipulega.

Leitað er að einstaklingi með áhuga á öldrunarmálum og vilja til að takast á við krefjandi verkefni.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og launanefndar sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur er til og með 18. janúar 2016.

Nánari upplýsingar um stöðu hjúkrunarforstjóra veitir:

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri, sími 856-4302

netfang: kjartan@dvalarheimili.is

Umsókn og ferilskrá ásamt rökstuðningi fyrir hæfni í starfið sendist á netfangið kjartan@dvalarheimili.is. Umsókn má einnig senda til framkvæmdastjóra Höfða, Sólmundarhöfða 5, 300 Akranesi.

Öllum umsóknum verður svarað.

Jólaball 2015

IMG_1962

Í dag var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var fullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

IMG_1956

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.
Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12.45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.
Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11.30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.
Óskum öllum landsmönnum gleðilegrar jólahátíðar.

Litlu jólin

IMG_1914

Í gærkvöldi buðu starfsmenn íbúum til samverustundar í aðdraganda jóla. Annarsvegar var samverustund á Innri-Hólmi fyrir íbúa Innri- og Ytri Hólms og hinsvegar á Leyni fyrir íbúa Leynis og Jaðars. Starfsmennirnir komu með margskonar góðgæti að heiman og buðu íbúunum. Mikil ánægja var með þessa notalegu kvöldstund og þetta skemmtilega framtak starfsmannanna.

Aðventa á Höfða

IMG_1794

Síðastliðinn föstudag var hið árlega jólahlaðborð Höfða haldið og komu fjölmargir aðstandendur og borðuðu með sínu fólki.   Helgin endaði svo með aðventustund á sunnudag sem var í umsjón Séra Eðvarðs Ingólfssonar og Séra Þráins Haraldssonar.  Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.