Höfðagleði 2016

IMG_2354

Hin árlega Höfðagleði var haldin föstudagskvöldið 4.mars sl.  Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, makar íbúa, læknar og stjórn Höfða, alls um 200 manns. Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem eldhús Höfða reiddi fram og var mikil ánægja með frábæran mat.

Kjartan Kjartansson setti skemmtunina og kynnti Ingibjörgu Pálmadóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem gest kvöldsins og sá hún jafnframt um veislustjórn. Systkinin Ylfa og Hallur Flosabörn spiluðu og sungu nokkur lög.   Bjarni R. Jónsson stjórnaði fjöldasöng og náði upp góðri stemmingu meðal veislugesta.

Kjartan framkvæmdastjóri færði við þetta tækifæri Reyni Þorsteinssyni yfirlækni Höfða smá þakklætisvott fyrir áratuga starf fyrir Höfða en senn líður að því að Reynir láti af störfum sem læknir heimilisins. Reynir hefur verið yfirlæknir Höfða frá því heimilið var opnað í febrúar 1978.

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga.

Að lokum var dansað við undirleik Bjórbandsins sem hélt uppi miklu stuði fram að miðnætti.

Höfðagleðin tókst vel að vanda og var mikið stuð á þátttakendum.