Hjólað óháð aldri – HÓA

HOA_1

Söfnun hafin fyrir hjóli

Þann 17. febrúar kom Sesselja Traustadóttir frá Hjólafærni til að kynna fyrir okkur verkefnið „Hjólað óháð aldri“. Verkefnið byggir á því að rjúfa einangrun og efla lífsgleði íbúa á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim kost að fara út að hjóla. Hjólarar eru skipaðir sjálfboðaliðum úr röðum aðstandenda, starfsmanna og annarra velunnara og munu hjólarar fá kennslu á hjólið og ákveðnar umgengisreglur viðhafðar. Hugmyndin er upphaflega dönsk, og hjólin eru komin í notkun út um allan heim.

Hjólið er með sæti fyrir tvo farþega fyrir framan þann sem hjólar. Það er með litlum hjálparmótor sem styður við í brekkum, þannig að flestir ættu að ráða vel við að hjóla.

Þrjú heimili á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar fengið hjól og bíður fólk spennt eftir að hlýna fari í veðri þannig að það komist út að hjóla. Fleiri heimili á landinu eru að safna fyrir hjólum.

Ákveðið var eftir mjög jákvæðar undirtektir á kynningafundinum að Höfði eignist slíkt hjól, búið er að panta hjólið og ætti það að koma til okkar í byrjun apríl.

Söfnunin er því hafin og hefur söfnunarbaukum verið komið fyrir á öllum deildum Höfða. Einnig er búið að opna söfnunarreikning: Reikningsnr.: 552-14-400204, kt.: 540498-2539.

Þar sem þetta er kjörið samfélagsverkefni er ósk okkar á Höfða að sem flestir leggi hönd á plóg og aðstoði okkur við verkefnið. Margar fjáröflunarleiðir eru til, til dæmis að leita til fyrirtækja í bænum og til líknarfélaga. Margt smátt gerir eitt stórt.

Allar góðar hugmyndir vel þegnar , áhugasamir hafi samband við Maríu idjuthjalfi@dvalarheimili.is eða Elísabetu sjukrathjalfari@dvalarheimili.is

 Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér :

www.hoa.is

https://www.facebook.com/Hj%C3%B3la%C3%B0-%C3%B3h%C3%A1%C3%B0-aldri-425335327661283/?fref=ts

HOA_2