Frábær Þýskalandsferð

 

 

Í fyrradag komu 56 starfsmenn Höfða heim úr 5 daga fræðslu- og skemmtiferð til Þýskalands. Gist var í bænum Oberkirch í Svartaskógi. Á föstudag heimsótti hópurinn hjúkrunarheimilið Das Katharinenstift í Freiborg, en á heimilinu eru 129 íbúar. Stjórnendur heimilisins tóku mjög vel á móti hópnum, kynntu starfsemi heimilisins, sýndi aðstöðuna, svöruðu fjölmörgum fyrirspurnum og buðu að lokum upp á kartöflusúpu sem virðist vera mjög vinsæl á þessum slóðum. Þessi heimsókn var mjög gagnleg og fróðlegt að sjá hvernig að málum er staðið í öðrum löndum.

 

Á laugardag var farið í skoðunarferðar til Strasbourg í Frakklandi þar sem gengið var um gamla borgarhlutann og farið í siglingu á ánni Ill. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og margt til gamans gert. Á sunnudag var svo ekið um vínræktarhéruðin í Alsace og komið við í tveimur fallegum smábæjum. Á heimleiðinni varð það óhapp að kviknaði í rútunni og varð hópurinn að yfirgefa hana og bíða í 2 tíma eftir annari rútu. Tóku því allir með bros á vör og göntuðust með að Höfðafólk og rútur ættu ekki samleið, en í síðustu utanlandsferð lenti hópurinn í svipaðri töf þegar rúta ók inn í skriðu á Kjalarnesi í upphafi ferðar.

 

Á mánudag var svo haldið heim á leið og lent í Keflavík síðdegis. Voru allir sammála um að ferðin hefði verið frábær í alla staði. Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Unnur Guðmundsdóttir sáu um undirbúning og skipulagningu ferðarinnar. Guðrún Björnsdóttir og Hildur Bernódusdóttir  stjórnuðu fjáröflun sem starfsmenn tóku þátt í af miklum krafti mánuðum saman. Farið var með Bændaferðum sem lögðu til fararstjóra, Þórhall Vilhjálmsson.

 

Veðrið var einstaklega gott í þessari frábæru ferð, 20-30 stiga hiti og sól.