Í dag var haldið hið árlega þorrablót Höfða. Boðið var upp á hefðbundinn þorramat og snafs. Almenn ánægja var með matinn sem var frábærlega góður. Tekin voru í notkun tvö trog sem Baldur smíðaði og var súrmatur í öðru en ósúrt í hinu.
Í dag var haldið hið árlega þorrablót Höfða. Boðið var upp á hefðbundinn þorramat og snafs. Almenn ánægja var með matinn sem var frábærlega góður. Tekin voru í notkun tvö trog sem Baldur smíðaði og var súrmatur í öðru en ósúrt í hinu.
Hjónin Andrés Andrésson og Kristgerður Þórðardóttir, Skagabraut 25, arfleiddu Dvalarheimilið Höfða að öllum sínum eignum (íbúðarhúsi, innbúi og bankainnistæðum). Arfurinn rennur í gjafasjóð Höfða og verður notaður til kaupa á nauðsynlegum tækjum og búnaði sem koma mun íbúum heimilisins til góða. Höfðinglegar gjafir velunnara Höfða í gjafasjóðinn á undanförnum árum hafa nýst mjög vel og eiga stóran þátt í því að Höfði er eitt best búna dvalarheimili landsins.
Andrés Andrésson fæddist á Hamri í Múlasveit í A-Barðastrandasýslu 28.júní 1925. Hann lést 22.apríl 2003. Andrés var starfsmaðurSementsverksmiðjunnar til starfsloka. Hann var orðlagður völundur í höndunum og hafði að aukastarfi smíði húsgagna, rokka o.fl.
Kristgerður Þórðardóttir fæddist á Ásmundarstöðum í Rangárvallasýslu 30.ágúst 1922. Hún lést 23.desember 2005. Kristgerður starfaði við fiskvinnslu um langt árabil.
Hún var mikil hannyrðakona og nutu þeir hæfileikar hennar sín vel í dagvistinni á Dvalarheimilinu Höfða sem hún stundaði reglulega síðustu árin og líkaði vel.
Stjórn Höfða, starfsfólk og íbúar minnast þessara heiðurshjóna með hlýhug og þakklæti fyrir einstakan höfðingsskap.
Í gær tók nýr hárgreiðslumeistari, Guðný Aðalgeirsdóttir, við rekstri hárgreiðslustofunnar á Höfða, en Áslaug Hjartardóttir hætti störfum á Þorláksmessu eftir 22ja ára farsælt starf. Guðný er boðin velkomin á Höfða. Hún er reyndur hárgreiðslumeistari og er fengur að fá hana hingað til starfa. Guðný leigir aðstöðuna og lýkur þar með rekstri Höfða á hárgreiðslustofu, en þjónustan er áfram tryggð, enda góð hárgreiðslustofa nauðsynlegur þáttur í starfsemi Höfða.
Í dag kvöddu íbúar og starfsmenn tvær heiðurskonur sem létu af störfum á Höfða á síðasta ári eftir langan og farsælar starfsferil, þær Elsu Guðmundsdóttur sem starfaði rúmlega 13 ár í eldhúsi Höfða og Áslaugu Hjartardóttur sem var hárgreiðslumeistari heimilisins í 22 ár.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ávarpaði þær stöllur, þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil, en báðar voru þær vinsælar og vel látnar af íbúum og samstarfsmönnum á Höfða.Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þær mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.
Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, formaður stjórnar Höfða, afhenti þeim afsteypu af Grettistaki með áletrun þar sem þeim eru þökkuð góð störf. Hún þakkaði störf þeirra og óskaði þeim velfarnaðar.
Þær Elsa og Áslaug þökkuðu íbúum og starfsfólki ánægjuleg samskipti og óskuðu Höfða og þeim sem þar búa og starfa farsældar á ókomnum árum.
Í dag var haldið árlegt jólaball á Höfða. Geysigóð mæting var á ballið, meiri en nokkru sinni áður. Hinn óviðjafnanlegi Gísli S.Einarsson stjórnaði dansi, söng og leikjum og hélt uppi miklu stuði.
Jólasveinarnir Gluggagægir og Kertasníkir komu í heimsókn, sungu, spjölluðu við börnin og gáfu þeim góðgæti.
Fjölmargir íbúar Höfða komu á ballið og glöddust með ungviðinu.
Í morgun komu 4 nemendur Grundaskóla og færðu Höfða að gjöf handunninn vasa, gerðan af nemendum skólans. Þess má geta að nemendur Grundaskóla hafa heimsótt Höfða fyrir hver jól í fjölda ára og fært heimilinu fallega hluti gerða af nemendum. Þessar góðu gjafir prýða Höfða.
Höfði færir nemendum Grundaskóla kærar þakkir fyrir þessar góðu gjafir og þann hlýhug sem þeim fylgja.
Í dag sungu Söngsystur, þær Auður Árnadóttir, Friðrika Bjarnadóttir, Hulda Óskarsdóttir og Sigríður Ketilsdóttir, jólasöngva og fleiri falleg lög við
gítarundirleik. Íbúar Höfða troðfylltu samkomusal heimilisins, tóku vel undir sönginn og þökkuðu þessum heiðurskonum með kröftugu lófataki.
Í dag mættu nokkrir íbúar Höfða í laufabrauðsgerð. Greinilegt var að konurnar kunnu vel til verka, enda þaulvanar laufabrauðsgerð um áratugaskeið. Undir röggsamri stjórn Öddu húsmóður á Höfða gekk verkið eins og í lygasögu.
Í gær mættu þær Sigríður Ketilsdóttir, Friðrika Bjarnadóttir, Hulda Óskarsdóttir og Auður Árnadóttir með gítarana og tóku lagið á hjúkrunardeildinni við frábærar undirtektir íbúanna sem sungu fullum hálsi með þeim stöllum. Þessar heiðurskonur, sem meðal Höfðafólks ganga undir nafninu Söngsystur, koma oft á hjúkrunardeildina og eru miklir aufúsugestir. Hafi þær þökk fyrir.
Mikil aðsókn var að Höfðabazarnum s.l. laugardag. Fjölbreytt úrval góðra muna vakti mikla aðdáun gesta og rokseldist varningurinn. Gestum var boðið upp á molakaffi og sýningu Íslandsbanka á verkum Blaðaljósmyndarafélags Íslands, sem stendur yfir á Höfða þessa dagana.