Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Grillveisla starfsmanna.

Starfsmannafélag Höfða bauð til grillveislu í Garðakaffi í fyrrakvöld. Bjarni kokkur grillaði nokkur lambalæri í holu sem hann og Baldur grófu bak við safnaskálann. Yfir 40 starfsmenn mættu og skemmtu hver öðrum til miðnættis. Frábær matur og góð stemning gerðu þessa kvöldstund eftirminnilega.

Framboðskynning Frjálslynda flokksins.

Frjálslyndi flokkurinn kynnti stefnumál sín í komandi bæjarstjórnarkosningum á Höfða í dag. Frambjóðendur í fjórum efstu sætum listans, Karen Jónsdóttir, Magnús Þór Hafsteinsson, Rannveig Bjarnadóttir og Sæmundur Halldórsson ásamt Guðjóni A.Kristjánssyni alþingismanni kynntu sér starfsemi heimilisins og spjölluðu við íbúa og starfsmenn.

Fyrirlestur um heilabilun.

Svava Aradóttir hjúkrunarfræðingur hjá fyrirtækinu NORDIC LIGHTS í Kaupmannahöfn flutti fyrirlestur sem hún nefndi “Reiði skjólstæðingurinn” á Höfða í dag. Fyrirlesturinn fjallaði um atferlis- og hegðunarvandkvæði fólks með heilabilunareinkenni.

Fyrirlesturinn var mjög vel sóttur af starfsfólki Höfða sem lagði margar spurningar fyrir Svövu og fékk við þeim greið svör.

Framboðskynning Samfylkingarinnar.

Samfylkingin kynnti stefnumál sín í komandi bæjarstjórnarkosningum á Höfða í dag. Frambjóðendur í öðru og fjórða sæti listans, Hrönn Ríkharðsdóttir og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanni, kynntu sér starfsemi Höfða og spjölluðu við íbúa og starfsmenn.

Suðurnesjamenn í heimsókn.

Í gær heimsóttu Höfða 39 starfsmenn Hlévangs í Keflavík og Garðvangs í Garði, en heimsóknin var liður í óvissuferð starfsmanna þessara tveggja stofnana. Gestirnir drukku kaffi með heimamönnum og skoðuðu síðan heimilið í fylgd Sigurbjargar Halldórsdóttur hjúkrunarforstjóra, Ingibjargar Ólafsdóttur iðjuþjálfa og Margrétar A.Guðmundsdóttur húsmóður. Héðan héldu þessir góðu gestir á sjöunda tímanum í Skessubrunn þar sem þeir hugðust borða kvöldverð og fylgjast með Eurovision söngvakeppninni.

Framboðskynning Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð.

Vinstri hreyfingin grænt framboð kynnti stefnumál sín fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Höfða í dag. Frambjóðendur í 4 efstu sætum listans, Rún Halldórsdóttir, Sigurður Mikael Jónsson, Halla Ingibjörg Guðmundsdóttir og Hjördís Garðarsdóttir ásamt þingmönnunum Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni kynntu sér jafnframt starfsemi heimilisins og spjölluðu við íbúa og starfsmenn.