Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Framboðskynning Frjálslynda flokksins.

Frjálslyndi flokkurinn kynnti stefnumál sín í komandi bæjarstjórnarkosningum á Höfða í dag. Frambjóðendur í fjórum efstu sætum listans, Karen Jónsdóttir, Magnús Þór Hafsteinsson, Rannveig Bjarnadóttir og Sæmundur Halldórsson ásamt Guðjóni A.Kristjánssyni alþingismanni kynntu sér starfsemi heimilisins og spjölluðu við íbúa og starfsmenn.

Fyrirlestur um heilabilun.

Svava Aradóttir hjúkrunarfræðingur hjá fyrirtækinu NORDIC LIGHTS í Kaupmannahöfn flutti fyrirlestur sem hún nefndi “Reiði skjólstæðingurinn” á Höfða í dag. Fyrirlesturinn fjallaði um atferlis- og hegðunarvandkvæði fólks með heilabilunareinkenni.

Fyrirlesturinn var mjög vel sóttur af starfsfólki Höfða sem lagði margar spurningar fyrir Svövu og fékk við þeim greið svör.

Framboðskynning Samfylkingarinnar.

Samfylkingin kynnti stefnumál sín í komandi bæjarstjórnarkosningum á Höfða í dag. Frambjóðendur í öðru og fjórða sæti listans, Hrönn Ríkharðsdóttir og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanni, kynntu sér starfsemi Höfða og spjölluðu við íbúa og starfsmenn.

Suðurnesjamenn í heimsókn.

Í gær heimsóttu Höfða 39 starfsmenn Hlévangs í Keflavík og Garðvangs í Garði, en heimsóknin var liður í óvissuferð starfsmanna þessara tveggja stofnana. Gestirnir drukku kaffi með heimamönnum og skoðuðu síðan heimilið í fylgd Sigurbjargar Halldórsdóttur hjúkrunarforstjóra, Ingibjargar Ólafsdóttur iðjuþjálfa og Margrétar A.Guðmundsdóttur húsmóður. Héðan héldu þessir góðu gestir á sjöunda tímanum í Skessubrunn þar sem þeir hugðust borða kvöldverð og fylgjast með Eurovision söngvakeppninni.

Framboðskynning Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð.

Vinstri hreyfingin grænt framboð kynnti stefnumál sín fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Höfða í dag. Frambjóðendur í 4 efstu sætum listans, Rún Halldórsdóttir, Sigurður Mikael Jónsson, Halla Ingibjörg Guðmundsdóttir og Hjördís Garðarsdóttir ásamt þingmönnunum Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni kynntu sér jafnframt starfsemi heimilisins og spjölluðu við íbúa og starfsmenn.

Höfðingleg gjöf

S.l. laugardag voru 50 ár liðin frá stofnun Lionsklúbbs Akraness. Á hátíðarfundi í tilefni afmælisins færðu Lionsmenn 5 stofnunum og félögum á Akranesi gjafir. Jósef H.Þorgeirsson formaður Lionsklúbbsins afhenti Höfða 250 þúsund krónur að gjöf. Guðjón Guðmundsson þakkaði þessa höfðinglegu gjöf og færði Lionsmönnum hamingjuóskir í tilefni afmælisins. Hann minnti á að Lionsmenn hefðu oft áður fært Höfða góðar gjafir og sýnt heimilinu ræktarsemi og vinsemd. Guðjón sagði jafnframt að gjafir einstaklinga, félaga og fyrirtækja hefðu leitt til þess að Höfði væri eitt best búna dvalar- og hjúkrunarheimili landsins.