Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

500 íbúi Höfða

Laugardaginn 2.febrúar flutti Kristjana Jónsdóttir inn á Höfða og varð þar með 500 íbúi heimilisins frá því það var opnað í febrúar 1978.

 

Að því tilefni færði Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða Kristjönu blómvönd að gjöf.

Tilmæli til gesta Höfða vegna heimsókna hafi þeir verið veikir

Frá starfsfólki Höfða


Árlega koma upp faraldrar ýmissa niðurgangspesta og inflúensu sem ganga milli manna. Heilbrigðir einstaklingar verða misjafnlega mikið veikir og jafna sig oftast fljótlega en geta verið smitandi í nokkra daga.


Á hjúkrunar- og dvalarheimilum liggja einstaklingar sem geta verið mjög viðkvæmir fyrir þessum sýkingum og verða því oft alvarlega veikir ef þeir smitast.


• Ef þú hefur verið með niðurgang, uppköst eða einkenni eins og beinverki, höfuðverk eða hita undanfarna 2 sólarhringa biðjum við þig um að fresta heimsókninni.

 

Með þessu viljum við vernda íbúa Höfða sem gætu smitast.

Þér er velkomið að hringja og fá upplýsingar um aðstandanda þinn eða tala við hann í síma.

 

Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri, 15.janúar 2013

Gjöf til Höfða

Vinkonurnar Friðmey Ásgrímsdóttir og Marey Edda Helgadóttir komu færandi hendi og gáfu Höfða afrakstur tómbólu sem þær stóðu fyrir.  Alls söfnuðu þær  6.290 krónum.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri á Höfða veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.

Jólaball

Í dag var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var troðfullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.


Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12,45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.


Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11,30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.


Óskum öllum landsmönnum gleðilegrar jólahátíðar.

Tónleikar

Mikið tónlistarlíf hefur verið á Höfða á aðventunni. Nemendur úr Tónlistarskóla Akraness héltu tónleika í Höfðasala í síðustu viku. Kór eldri borgara var með tónleika sl. þriðjudag og seinnipartinn í gær var Grundartangakórinn með tónleika í Höfðasal.

Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.

Aðventan gengur í garð

Síðastliðinn föstudag var hið árlega jólahlaðborð Höfða haldið og komu fjölmargir aðstandendur og borðuðu með sínu fólki.   Í framhaldi af jólahlaðborðinu var hin síungi Þorvaldur Halldórsson með tónleika fyrir Höfðafólk sem endaði með dansi.  Helgin endaði svo með aðventustund á sunnudag sem var í umsjón Séra Eðvarðs Ingólfssonar.  Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.

Ingibjörg Pálmadóttir heimsækir Höfða

Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi formaður Hjálparstarfs kirkjunnar heimsótti Höfða í gær og rabbaði við Höfðafólk um ferð sína til Afríku fyrr árinu á vegum hjálparstarfsins  í fullum Höfðasal. Var gerður góður rómur að spjalli Ingibjargar sem fór á kostum að vanda með léttleika sínum.

Jólamarkaður

S.l. laugardag héldu starfsmenn Höfða jólamarkað. Þar var selt bakkelsi, sultur, hannyrðavörur og föndurvörur gerðar af starfsmönnum, en undanfarnar vikur hafa verið nokkur föndurkvöld á Höfða. Þá var Ólöf Hjartardóttir og Sigmundur Hansen íbúar á Höfða með sölubás þar sem þau seldu eigið handverk.

 

Samhliða jólamarkaðnum var boðið upp á vöfflukaffi.

 

3- 400 manns sóttu þennan jólamarkað sem tókst í alla staði mjög vel.