Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Framboðskynning Sjálfstæðisflokksins

Fyrsta framboðskynningin á Höfða fyrir komandi þingkosningar var í morgun. Þá heimsótti nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, Ásbjörn Óttarsson, Höfða og kynnti sér starfsemi heimilisins, ræddi við íbúa og starfsmenn og kynnti stefnumál síns flokks í komandi kosningum.

Vel heppnuð samverustund

S.l. föstudag héldu íbúar Höfða og dagdeildarfólk samverustund í samkomusalnum. Þar flutti Kjartan Guðmundsson draugasögur og einnig frumortar gamanvísur, Guðrún Adolfsdóttir lék nokkur lög á píanó.

 

Skarphéðinn Árnason fór með kveðskap og Guðjónína Sigurðardóttir stjórnaði fjöldasöng og lék undir á gítar.

 

Þessi samverustund tókst mjög vel. Samkomusalurinn var troðfullur og skemmti fólk sér vel og höfðu flestir á orði að þetta þyrftum við að gera fljótlega aftur.

Skátabingó

Í dag heimsóttu Höfða góðir gestir, 3 stúlkur úr skátaflokknum Meyjarnar, þær Lilja Rut Bjarnadóttir, Sigríður Lóa Björnsdóttir og Erla Guðmundsdóttir. Þær héldu bingó fyrir heimilisfólk og sungu nokkur lög.

 

Bingóvinningarnir voru sérlega glæsilegir, en þær stöllur höfðu fengið þá gefna hjá nokkrum verslunum á Akranesi.

 

Mikil þátttaka var í bingóinu og almenn ánægja með heimsókn þessara góðu gesta.

Aðstandendafundur

 Í gær var haldinn fundur með aðstandendum íbúa á Höfða. Þar sagði Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri frá rekstri Höfða, starfsmannahaldi, fyrirhuguðum framkvæmdum o.fl. og Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri ræddu um hjúkrun og aðhlynningu og sagði frá tengiliðakerfi sem tekur gildi í þessum mánuði.

 

Þau Guðjón, Helga og deildarstjórarnir Sólveig Kristinsdóttir, Sigrún Valgarðsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir sátu síðan fyrir svörum og tóku þátt í umræðum með fundargestum.

 

Fundurinn var mjög vel sóttur. Boðið var upp á kaffi, kleinur og heimabakað brauð.

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs og stjórn Höfða, alls um 170 manns. Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Borin var fram þríréttuð veislumáltíð sem samanstóð af humarsúpu, lambafille og desert. Var almenn ánægja með þennan frábæra mat sem Haukur bryti og hans fólk reiddi fram.

 

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns og Kjarnafæðis.

 

Guðrún Björnsdóttir, Ólöf Auður Böðvarsdóttir og Guðrún Sigurbjörnsdóttir voru með ÚTVARP HÖFÐA, þar sem fluttar voru fréttir og óskalög, Guðrún Sigurbjörnsdóttir lék Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem söng ástaróð til framkvæmdastjóra, sonardóttir Sigrúnar Halldórsdóttur og hennar dansherra voru með frábæra danssýningu, Guðni Ágústsson ávarpaði samkomuna og fór á kostum og Hulda Gestsdóttir söng nokkur lög.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Höfðagleðin þótti takast sérlega vel að þessu sinni og var  mikil ánægja var með veitingar, skemmtiatriði og músik.

Bocciamót

Hinu árlega 3ja daga Boccia móti Höfða lauk í gær. Keppnin var að vanda jöfn og spennandi. 9 lið tóku þátt í mótinu.

 

Liðin voru þannig skipuð:

 

FOLAR:         Björn Gústafsson, Hákon Björnsson, Eygló Halldórsdóttir

 

FÁLKAR:      Jón Einarsson, Guðbjörg Pétursdóttir, Guðný Þorvaldsdóttir

 

RÚSÍNUR:    Sigurður Halldórsson, Vigfús Sigurðsson, Lúðvík Björnsson

 

GARPAR:      Sigurjón Jónsson, Svava Símonardóttir, Gunnar Guðjónsson

 

SÓLIR:           Valgerður Einarsdóttir, Auður Elíasdóttir, Gunnvör Björnsdóttir

 

SKÝIN:          Guðrún Adolfsdóttir, Anna M.Jónsdóttir, Sjöfn Jóhannesdóttir

 

HRÚTAR:      Skarphéðinn Árnason, Tómas Sigurðsson, Bjarney Hagalínsdóttir

 

STRÁIN:        Jóhannes Halldórsson, Grétar Jónsson, Rakel Jónsdóttir

 

ERNIR:          Magnús Guðmundsson, Bjarni Guðmundsson, Lára Arnfinnsdóttir

 

Í þriggja liða úrslitum kepptu Fálkar, Rúnínur og Skýin. Þá kom Þuríður Jónsdóttir inn í lið Fálkanna í forföllum Guðnýjar og Svava Símonardóttir í lið Skýjanna í forföllum Önnu.

 

Úrslit urðu þau að SKÝIN sigruðu, ÚLFAR lentu í 2.sæti og FÁLKAR í 3.sæti.

 

Edda Guðmundsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir voru dómarar og stjórnuðu mótinu af röggsemi og í léttum dúr. Mikill fjöldi áhorfenda var á öllum leikjunum.

 

Verðlaunaafhending fór fram í síðdegiskaffi að móti loknu.

 

 

 

Skemmtileg gjöf

Einar Jónsson frá Drageyri, sem flutti á Höfða í síðasta mánuði, færði heimilinu að gjöf í gær uppstoppaðan ferhyrndan haus af fjögurra vetra hrúti. Þessi myndarlegi hrútshaus mun prýða ganginn inn af anddyri Höfða og blasa við öllum sem inn koma.

 

Þess má geta að fyrir nokkrum árum átti Höfði samskonar haus sem hékk á sama stað á ganginum, en var stolið. Þótti það mikil bíræfni. Sagt var frá þjófnaðinum í fjölmiðlum en ekki skilaði hausinn sér.

 

Ekki ætti að vera hætta á að nýja hausnum verði stolið. Bæði verður hann rammlega festur og eins eru komnar öryggismyndavélar á ganginn sem sýna allar mannaferðir.

Tónlistarguðþjónusta

Í gær var haldin tónlistarguðsþjónusta á Höfða. Ragnar Bjarnason söng nokkur af sínum vinsælustu lögum við undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar. Milli laga talaði sr. Eðvarð Ingólfsson og lagði út af textum laganna.

 

Þessi tónlistarguðsþjónusta heppnaðist afar vel og íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn. Að lokum þakkaði framkvæmdastjóri sóknarpresti og listamönnunum fyrir þessa skemmtilegu og hátíðlegu stund.