Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Jólamarkaður

S.l. laugardag héldu starfsmenn Höfða jólamarkað. Þar var selt bakkelsi, sultur, hannyrðavörur og föndurvörur gerðar af starfsmönnum, en undanfarnar vikur hafa verið nokkur föndurkvöld á Höfða. Þá var Ólöf Hjartardóttir og Sigmundur Hansen íbúar á Höfða með sölubás þar sem þau seldu eigið handverk.

 

Samhliða jólamarkaðnum var boðið upp á vöfflukaffi.

 

3- 400 manns sóttu þennan jólamarkað sem tókst í alla staði mjög vel.

Vöfflukaffi og markaður !

Starfsmenn og íbúar Höfða halda markað og vöfflukaffi  laugardaginn 16. nóvember í Höfðasal frá kl. 14.00 til 16.00.


Vöfflukaffi-handverk-bakkelsi og fleira.


Einnig boðið upp á stutta Bowenmeðferð.


Allir velkomnir.

Kvöldvaka

Hin árlega kvöldvaka þar sem starfsmenn Höfða bjóða íbúum upp á skemmtiatriði og veitingar var haldin í gærkvöldi. Borð svignuðu undan girnilegum kræsingum sem starfsmenn komu með að heiman og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Fyrst dönsuðu nokkur pör úr Dansstúdíói Írisar, síðan spilaði Emil Þór á gítar og Kristín Ragnars starfsmaður á Höfða spilaði á fiðlu. Að lokum sungu og spiluðu Samúel Þorsteinsson og Elva M. Ingvadóttir nokkur lög við góðar undirtektir.
 
Mikil ánægja var með þessa kvöldvöku sem heppnaðist mjög vel. Skemmtinefndina skipuðu þær Elísabet Pálsdóttir,Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir, Halla Ingólfsdóttir, Lára Bogey Finnbogadóttir og Ingibjörg Huld Gísladóttir.

Sláturgerð

Í vikunni hafa íbúar Höfða staðið í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 80 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg og augljóst að margir þeirra sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

Létt var yfir fólki við sláturgerðina og augljóst að allir höfðu af þessu gaman. Fyrsta sláturmáltíðin var framreitt á miðvikudaginn, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir

Vökudagar 2013

Í tilefni Vökudaga var opnuð sýning á málverkum Sylvíu Björgvinsdóttur s.l. föstudag. Við opnunina söng sönghópurinn Stúkurnar nokkur lög.  Boðið var upp á léttar veitingar.


Sýningin er opin alla daga meðan á Vökudögum stendur til 9. nóvember nk.


Á sunnudaginn var síðan Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söngkona ásamt Jóni Gunnari Biering Margeirssyni gítarleikara með tónleika í Höfðasal .  Flutt voru íslensk sönglög, má þar nefna lög eftir Sigfús Halldórsson, Pál Ísólfsson, Sigvalda Kaldalóns, Jórunni Viðar og ýmsa fleiri.

Opnun ljósmyndasýningar

Í dag var opnuð ljósmyndasýning á Höfða í tilefni af Vökudögum á Akranesi.  Það eru 5 ára börn af leikskólanum Garðaseli sem sýna myndir sínar.  Yfirskrift sýningarinnar er: Það sem augað mitt sér.

Fjölmennt var við opnunina bæði af Höfðafólki og gestum.  Við þetta tækifæri fluttu börnin líka nokkur lög við góðar undirtektir.

Sýningin er opin alla daga meðan á Vökudögum stendur frá 30.október til 9. nóvember nk.

Tónleikar nemenda Tónlistarskóla Akraness

Nemendur úr  Tónlistarskóla Akraness héltu tónleika í Höfðasala þann 10.október sl.

Höfðafólk fjölmennti á tónleikana og þakkaði flytendum með lófataki.

Fyrirhugað er að nemendur úr skólanum komi mánaðarlega í heimsókn og haldi tónleika fyrir heimilisfólk.  Munu tónleikar vera annan fimmtudag í mánuði kl. 14.00 og eru  aðstandendur velkomnir að koma og njóta þeirra með sínu fólki.

Starfsaldursviðurkenningar

Í dag voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar við stutta athöfn í matsal Höfða að viðstöddum íbúum Höfða og dagdeildarfólki. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 14 starfsmenn viðurkenningu:

Fyrir 5 ára starf: Aldís Þorbjörnsdóttir, Arna M. Kjartansdóttir, Birna Vala Skarphéðinsdóttir, Ester Talledo, Eva Guðbjörg Leifsdóttir, Halla Ingólfsdóttir og Sigurlín Gunnarsdóttir.

Fyrir 10 ára starf: Steina Ósk Gísladóttir.

Fyrir 15 ára starf: Ásta Björg Arngrímsdóttir, Hildur Þorvaldsdóttir, Lára V. Jóhannesdóttir Sóley Sævarsdóttir og Rakel Gísladóttir.

Fyrir 20 ára starf: Sigríður Sigurlaugsdóttir.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Kjartan sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls.

Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á síðustu mánuðum eftir langan og farsælan starfsferil, þau Margrét A. Guðmundsdóttir sem var starfsstjóri, forstöðukona og húsmóðir á Höfða í rúmlega 31 ár, Guðbjörg Halldórsdóttir sem var starfsmaður í þvottahúsi í 12 ár og Guðjón Guðmundsson sem var framkvæmdastjóri Höfða í 8 ár.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri þakkaði störf þremenninganna og rakti farsælan starfsferil þeirra. Kjartan óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld. Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða afhenti þeim blómvönd og litla gjöf frá Höfða.

Alþýðuóperan í heimsókn

Síðastliðinn sunnudag kom Alþýðuóperan í heimsókn á Höfða og flutti gamanóperuna Ráðskonuríki (La serva padrona) eftir Pergolesi í Höfðasal.

Meðal flytjenda var Hanna Þóra Guðbrandsdóttir fyrrverandi bæjarlistamaður Akraness.

Góð aðsókn var að þessari skemmtun og undirtektir góðar.

Út að ganga

Skipulagðar gönguferðir utandyra á sumrin eru orðnar fastur liður í dagskránni á Höfða. Þær eru mjög vinsælar,  ekki síst þegar veðrið er gott. Þeir sem ekki getað gengið langar vegalengdir  er boðið að koma út í hjólastól.

Reynt er að gefa öllum tækifæri sem vilja að komast út sem oftast .  Um 4-6 starfsmenn eru með í för, en skipulagning og stjórn er að mestu í höndum starfsmanna sjúkraþjálfunar, dagdeildar og iðjuþjálfunar.

Einnig hefur Vinnuskólinn verið svo vinsamlegur að „lána „ okkur nokkra unglinga sem koma og hjálpa til  og keyra þá oftast hjólastólana. Mikil  ánægja er með þetta fyrirkomulag sem er gagnlegt  og ánægjulegt fyrir báða aðila.

Farið er út alla virka daga en veðrið hefur ekki verið alveg nógu hliðhollt þetta sumarið. Þegar vel viðrar eru um 20 til 30 íbúar og dagdeildarfólk sem fara út.  

Um nokkrar gönguleiðir í nágrenni Höfða er að velja,  allt á malbikuðum stigum. Vinsælt er að fara eftir nýja stignum út á Sólmundarhöfðann, einnig út í Leynisvíkina í gegnum Höfðagrundina og svo ekki síst  að Aggapalli  á stígnum  eftir Langasandi.

Lagt er af stað um 11:15 og komið tímalega til baka fyrir hádegismat.  Aðstandendur eru velkomnir að koma með.