Á Vordögum í Grundaskóla komu nemendur á ýmsum aldri í heimsókn og spiluðu við íbúa Höfða öllum til mikillar ánægju.
Á Vordögum í Grundaskóla komu nemendur á ýmsum aldri í heimsókn og spiluðu við íbúa Höfða öllum til mikillar ánægju.
Börn úr dansskóla Írisar Einarsdóttur komu og sýndu listir sínar á dansgólfinu í Höfðasal í dag við góðar undirtektir áhorfenda.
Í gær var haldinn vormarkaður á Höfða. Þar var meðal annars í boði úrval af sultum, kæfu, brauði, kleinum, garðplöntum, fötum og fleiru sem starfsmenn seldu til fjáröflunar fyrir væntanlega Þýskalandsferð.
Nokkrir íbúar vor með stórskemmtilega sölubása þar sem meðal annars var boðið upp á falleg gjafakort, veiðiflugur, skartgripi og handunna steina, allt unnið af seljendum.
Spákona var á staðnum og var biðröð hjá henni allan opnunartímann. Einnig var boðið upp á orkujöfnun og margt fleira. Elísabet sjúkraþjálfari var með málverkasýningu og seldi hátt í 30 myndir.
Í nýja matsalnum var boðið upp á kaffi og vöfflur og djús fyrir börnin. Þar var troðfullt allan tímann, en mörg hundruð manns sóttu þennan vel heppnaða vormarkað.
Sunnudaginn 22.maí ætla íbúar og starfsfólk Höfða að halda vormarkað mill kl. 14 og 17.
Margt verður í boði:
Flóamarkaður þar sem hægt verður að gera góð kaup.Sölubásar með ýmiskonar góðgæti, bakstri og handverki
Garðplöntusala, myndlistarsýning, OPJ orkupunktajöfnun o.fl.
Kaffihúsastemming, þar sem hægt verður að kaupa kaffi og vöfflur.
Ath. Ekki er tekið á móti greiðslukortum !
Í gær héldu Rannveig Káradóttir sópransöngkona og Birna Hallgrímsdóttir píanóleikari tónleika í Höfðasal. Tónleikana nefndu þær Náttúran, en hvert lag á efnisskránni var tileinkað ákveðnum hlut eða fyrirbæri sem finnst í eða tengist íslenskri náttúru.
Tónleikarnir voru vel sóttir og undirtektir góðar.
Klarinettukvartett frá Tónlistarskóla Akraness hélt tónleika í Höfðasal í gær. Kvartettinn skipa Bjarney Guðbjörnsdóttir, Berglind Ósk Jóhannesdóttir, Bergþóra Sveinsdóttir og Sonja Bjarnadóttir. Stjórnandi er Halldór Sighvatsson.
Höfðafólk fjölmennti á tónleikana og þakkaði flytendum með lófataki.
Starfsmenn Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi heimsóttu Höfða í dag. Þeir skoðuðu heimilið í fylgd Margrétar A.Guðmundsdóttur og Eddu Guðmundsdóttur. Að því loknu var sest yfir kaffibolla í Höfðasal þar sem Guðjón Guðmundsson og Helga Atladóttir sögðu frá starfsemi Höfða og framkvæmdum.
framkvæmdastjóri DAB þakkaði fyrir hönd gestanna fyrir móttökurnar. Að heimsókn lokinni héldu þessi góðu gestir upp í Hvalfjarðarsveit þar sem þeirra beið dagskrá fram eftir kvöldi.
Í dag söng stórtenórinn Gissur Páll Gissurarson í Höfðasalnum við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar. Gissur Páll söng góðu gömlu íslensku lögin og endaði á Hamraborginni sem alltaf slær í gegn. Hann tók síðan aukalög eftir kröftugt uppklapp Höfðafólks sem fjölmennti og sjaldan hefur verið klappað meira á Höfða.
Grundartangakórinn hélt tónleika á Höfða 1.maí. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason. Undirleik annaðist Flosi Einarsson.
Söngurinn gerði stormandi lukku hjá Höfðafólki sem fjölmennti og skemmti sér konunglega.
Í dag var fræðsludagur starfsmanna Höfða frá kl. 12,30-16,00. Magna Fríður Birnir hjúkrunarforstjóri á heilsustofnun í Hveragerði ræddi um streitu, slökun og eflingu sjálfsímyndar og Laura Scheving Thorsteinsson hjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu ræddi um hamingju í starfi.
Þessi fræðsla tókst mjög vel og báðir fyrirlesarar settu mál sitt fram á skýran hátt og jafnframt skemmtilega og var mikið hlegið, en um 50 starfsmenn tóku þátt í þessum fræðsludegi.