Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Tónleikar Grundartangakórsins

 

Grundartangakórinn hélt sína árlegu jólatónleika á Höfða í síðustu viku. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar Guðlaugur Atlason og Smári Vífilsson. Undirleik annaðist Flosi Einarsson.

 

Að vanda gerði söngur kórsins mikla lukku og var mikið klappað. Guðjón þakkaði kórfélögum komuna og einstaka tryggð og vináttu við íbúa Höfða, en þetta mun vera 29.árið í röð sem kórinn syngur á Höfða og undanfarin ár að jafnaði tvisvar á ári.

Stofnfundur Höfðavina

 

 

Í gær var haldinn félags aðstandenda og velunnara Höfða og hlaut félagið nafnið Höfðavinir. Frumkvæði að stofnun félagsins höfða þær Elín Hanna Kjartansdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og Soffía Magnúsdóttir og stjórnuðu þær fundinum. Samþykkt voru lög fyrir félagið og fyrrnefndar þrjár konur kosnar í stjórn. Í varastjórn voru kosin Valdís Valgarðsdóttir og Guðjón V.Guðjónsson.

 

Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða færði félaginu að gjöf fundargerðarbók og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri lýsti ánægju stjórnenda Höfða með stofnun félagsins. Meðal fundarmanna var Árni Múli Jónasson bæjarstjóri.

Laufabrauðsskurður

 

Allmargir íbúar Höfða og dagdeildarfólk tóku þátt í laufabrauðsskurði í dag. Auðséð var á handbragðinu að flestir voru þaulvanir þessari list. Kaffi og konfekt var á borðum og létt yfir fólki við skurðinn.

Sögustund

 

Þóra Grímsdóttir sagnaþulur var með sögustund á Höfða í  dag. 40 – 50 manns sóttu sögustundina og var góður rómur var gerður að flutningi Þóru.

Ráðherra í heimsókn

 

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti Höfða í dag. Í fylgd með honum var Árni Snæbjörnsson aðstoðarmaður ráðherra.

 

Ráðherra heilsaði upp á íbúa og starfsmenn, skoðaði nýafstaðnar framkvæmdir við Höfða og ræddi við framkvæmdastjóra um stöðu heimilisins.

Vel heppnaðir vökudagar

 

 

 

Mikil aðsókn var að Vökudögum á Höfða um helgina. Um 120 manns komu á föstudag og 140 manns á laugardag. Var almenn ánægja með þau atriði sem þar var boðið upp á, en þau voru kynnt hér á heimasíðunni 26.október.

Vökudagar

Hin árlega menningarhátíð Akurnesinga, Vökudagar, hefst 27.október. Höfði tekur að vanda þátt í Vökudögum og býður upp á aðstandendaþema. Dagskráin er svohljóðandi:

28.október kl. 17:

Pétur Ottesen spjallar á léttum nótum.
Hanna Þóra Guðbrandsdóttir syngur við undirleik
Sveins Arnars Sæmundssonar.

Léttar veitingar.

 

29.október kl. 14:

Tinda tríó (Atli Guðlaugsson, Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason) og Sveinn Arnar syngja

Ármann Jónsson og Erna Dögg Pálsdóttir sýna dansa.

 

28. október kl. 17 – 20 og 29.október kl. 14 -17:

Björn Lúðvíksson sýnir málverk og ljósmyndir.

Mömmur.is sýna hvað þær eru að gera.

Íbúar Höfða; Auður Elíasdóttir, Björn Gústafsson og Ólöf Hjartardóttir selja kort, skartgripi o.fl.

Sláturgerð 2011

 

Í gær stóðu íbúar Höfða í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 140 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg, enda hafa flestir þeir sem að sláturgerðinni stóðu tekið slátur á hverju hausti í áratugi.

 

Sigríður Guðmundsdóttir mætti að vanda í sláturgerðina, en hún er 101 árs gömul og hefur yfir 90 ára reynslu af sláturgerð.

 

Létt var yfir öllum við sláturgerðina, lagið tekið og augljóst að allir höfðu gaman af verkefninu.  Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd á morgun, en slátrið er alltaf jafn vinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

 

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir.