Allar færslur eftir Bjarni Þór Ólafsson

Orðsending til aðstandenda íbúa Höfða

Sælir aðstandendur,

Vegna yfirvofandi verkfalls sjúkraliða gæti skapast neyðarástand á heimilinu ef af verkfalli verður, sjúkraliðar eru stór hluti starfsfólks  og óskar því heimilið eftir aðstoð ykkar við umönnun.

Ef af verður mun verkfallið hefjast á mánudaginn 4/4 og er fyrirséð að neyðarástand skapast á kvöldvöktum sem eru frá 15 til 23.  Gott væri ef þið gætuð séð ykkur fært að aðstoða við umönnun ykkar aðstandanda á þessum tíma.  Leyfilegt er samkvæmt Sjúkraliðafélagi Íslands að aðstandandi aðstoði sinn ættingja.

Við óskum þess að ekki komi til þessa verkfalls en við vonumst eftir góðum viðbrögðum frá ykkur við þessari beiðni ef af verkfalli verður.

Virðingarfyllst,

Hallveig Skúladóttir hjúkrunarforstjóri

Bylgja Kristófersdóttir hjúkrunardeildarstjóri

Margrét Vífilsdóttir hjúkrunardeildarstjóri

Gjöf frá Lionsklúbbi Akraness

Ólafur Eyberg Guðjónsson stjórnarmaður í Liknarsjóði Lkl.Akraness afhendir Kjartani framkvæmdastjóra tækið
Ólafur Eyberg Guðjónsson stjórnarmaður í Liknarsjóði Lkl.Akraness afhendir Kjartani framkvæmdastjóra tækið.

Í gærkvöldi var Lionsklúbbur Akraness með félagsfund í Höfðasal og við það tilefni færði klúbburinn Höfða að gjöf SimplyGo ferðasúrefnissíu.

Það var Ólafur Eyberg Guðjónsson stjórnarmaður í Líknarsjóði Lkl.Akraness sem afhenti Kjartani Kjartanssyni framkvæmdastjóra Höfða formlega súrefnistækið.

Í máli Kjartans við afhendinguna kom fram að ferðasúrefnissían auki mjög lífsgæði íbúa Höfða sem þurfa á súrefnisgjöf að halda. Kjartan þakkaði Lionsmönnum fyrir höfðinglega gjöf og þann hlýhug sem fylgir gjöfinni.

Höfðagleði 2016

IMG_2354

Hin árlega Höfðagleði var haldin föstudagskvöldið 4.mars sl.  Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, makar íbúa, læknar og stjórn Höfða, alls um 200 manns. Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem eldhús Höfða reiddi fram og var mikil ánægja með frábæran mat.

Kjartan Kjartansson setti skemmtunina og kynnti Ingibjörgu Pálmadóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem gest kvöldsins og sá hún jafnframt um veislustjórn. Systkinin Ylfa og Hallur Flosabörn spiluðu og sungu nokkur lög.   Bjarni R. Jónsson stjórnaði fjöldasöng og náði upp góðri stemmingu meðal veislugesta.

Kjartan framkvæmdastjóri færði við þetta tækifæri Reyni Þorsteinssyni yfirlækni Höfða smá þakklætisvott fyrir áratuga starf fyrir Höfða en senn líður að því að Reynir láti af störfum sem læknir heimilisins. Reynir hefur verið yfirlæknir Höfða frá því heimilið var opnað í febrúar 1978.

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga.

Að lokum var dansað við undirleik Bjórbandsins sem hélt uppi miklu stuði fram að miðnætti.

Höfðagleðin tókst vel að vanda og var mikið stuð á þátttakendum.

Hjólað óháð aldri – HÓA

HOA_1

Söfnun hafin fyrir hjóli

Þann 17. febrúar kom Sesselja Traustadóttir frá Hjólafærni til að kynna fyrir okkur verkefnið „Hjólað óháð aldri“. Verkefnið byggir á því að rjúfa einangrun og efla lífsgleði íbúa á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim kost að fara út að hjóla. Hjólarar eru skipaðir sjálfboðaliðum úr röðum aðstandenda, starfsmanna og annarra velunnara og munu hjólarar fá kennslu á hjólið og ákveðnar umgengisreglur viðhafðar. Hugmyndin er upphaflega dönsk, og hjólin eru komin í notkun út um allan heim.

Hjólið er með sæti fyrir tvo farþega fyrir framan þann sem hjólar. Það er með litlum hjálparmótor sem styður við í brekkum, þannig að flestir ættu að ráða vel við að hjóla.

Þrjú heimili á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar fengið hjól og bíður fólk spennt eftir að hlýna fari í veðri þannig að það komist út að hjóla. Fleiri heimili á landinu eru að safna fyrir hjólum.

Ákveðið var eftir mjög jákvæðar undirtektir á kynningafundinum að Höfði eignist slíkt hjól, búið er að panta hjólið og ætti það að koma til okkar í byrjun apríl.

Söfnunin er því hafin og hefur söfnunarbaukum verið komið fyrir á öllum deildum Höfða. Einnig er búið að opna söfnunarreikning: Reikningsnr.: 552-14-400204, kt.: 540498-2539.

Þar sem þetta er kjörið samfélagsverkefni er ósk okkar á Höfða að sem flestir leggi hönd á plóg og aðstoði okkur við verkefnið. Margar fjáröflunarleiðir eru til, til dæmis að leita til fyrirtækja í bænum og til líknarfélaga. Margt smátt gerir eitt stórt.

Allar góðar hugmyndir vel þegnar , áhugasamir hafi samband við Maríu idjuthjalfi@dvalarheimili.is eða Elísabetu sjukrathjalfari@dvalarheimili.is

 Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér :

www.hoa.is

https://www.facebook.com/Hj%C3%B3la%C3%B0-%C3%B3h%C3%A1%C3%B0-aldri-425335327661283/?fref=ts

HOA_2

Gjöf frá Sambandi borgfirskra kvenna

IMG_1987
Heiðrún Sveinbjörnsdóttir, Gerður K. Guðnadóttir, Valgerður Björnsdóttir, Kjartan Kjartansson og Sigurlín Gunnarsdóttir

 

 

 

 

 

 

Fulltrúar Sambands borgfirskra kvenna komur færandi hendi til okkar á Höfða í gær.

Þær Valgerður Björnsdóttir formaður, Gerður K. Guðnadóttir gjaldkeri og Heiðrún Sveinbjörnsdóttir meðstjórnandi færðu Höfða að gjöf gjafabréf og er andvirði þess ætlað til kaupa á búnaði sem nýtist heimilisfólki á Höfða.  Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri og Sigurlín Gunnarsdóttir húsmóðir veittu styrknum móttöku og þökkuðu fyrir höfðinglega gjöf sem mun nýtast vel á Höfða.

 

Auglýsing

Hjúkrunarforstjóri

Hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfði á Akranesi auglýsir stöðu hjúkrunarforstjóra lausa til umsóknar.

Á Höfða eru 75 íbúar, 56 í hjúkrunarrýmum og 19 í dvalarrýmum. Nánari upplýsingar um heimilið er hér á heimsíðunni.

Hjúkrunarforstjóri hefur faglega forustu og ábyrgð á sviði hjúkrunar og umönnunar á heimilinu.  Stjórnar faglegri þróun, rekstri og starfsmannahaldi heimilisins á sviði hjúkrunar og umönnunar.

Menntunar- og hæfnikröfur:

Gerð er krafa um íslenskt hjúkrunarleyfi.

Framhaldsmenntun í stjórnun og rekstri æskileg.

Góð tölvukunnátta áskilin.

Reynsla og þekking á rekstri og stjórnun á sviði öldrunarmála er æskileg.

Framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum er áskilin sem og hæfni til að vinna sjálfstætt og skipulega.

Leitað er að einstaklingi með áhuga á öldrunarmálum og vilja til að takast á við krefjandi verkefni.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og launanefndar sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur er til og með 18. janúar 2016.

Nánari upplýsingar um stöðu hjúkrunarforstjóra veitir:

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri, sími 856-4302

netfang: kjartan@dvalarheimili.is

Umsókn og ferilskrá ásamt rökstuðningi fyrir hæfni í starfið sendist á netfangið kjartan@dvalarheimili.is. Umsókn má einnig senda til framkvæmdastjóra Höfða, Sólmundarhöfða 5, 300 Akranesi.

Öllum umsóknum verður svarað.

Jólaball 2015

IMG_1962

Í dag var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var fullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

IMG_1956

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.
Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12.45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.
Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11.30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.
Óskum öllum landsmönnum gleðilegrar jólahátíðar.