Ingibjörg Pálmadóttir heimsækir Höfða

Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi formaður Hjálparstarfs kirkjunnar heimsótti Höfða í gær og rabbaði við Höfðafólk um ferð sína til Afríku fyrr árinu á vegum hjálparstarfsins  í fullum Höfðasal. Var gerður góður rómur að spjalli Ingibjargar sem fór á kostum að vanda með léttleika sínum.

Jólamarkaður

S.l. laugardag héldu starfsmenn Höfða jólamarkað. Þar var selt bakkelsi, sultur, hannyrðavörur og föndurvörur gerðar af starfsmönnum, en undanfarnar vikur hafa verið nokkur föndurkvöld á Höfða. Þá var Ólöf Hjartardóttir og Sigmundur Hansen íbúar á Höfða með sölubás þar sem þau seldu eigið handverk.

 

Samhliða jólamarkaðnum var boðið upp á vöfflukaffi.

 

3- 400 manns sóttu þennan jólamarkað sem tókst í alla staði mjög vel.

Vöfflukaffi og markaður !

Starfsmenn og íbúar Höfða halda markað og vöfflukaffi  laugardaginn 16. nóvember í Höfðasal frá kl. 14.00 til 16.00.


Vöfflukaffi-handverk-bakkelsi og fleira.


Einnig boðið upp á stutta Bowenmeðferð.


Allir velkomnir.

Kvöldvaka

Hin árlega kvöldvaka þar sem starfsmenn Höfða bjóða íbúum upp á skemmtiatriði og veitingar var haldin í gærkvöldi. Borð svignuðu undan girnilegum kræsingum sem starfsmenn komu með að heiman og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Fyrst dönsuðu nokkur pör úr Dansstúdíói Írisar, síðan spilaði Emil Þór á gítar og Kristín Ragnars starfsmaður á Höfða spilaði á fiðlu. Að lokum sungu og spiluðu Samúel Þorsteinsson og Elva M. Ingvadóttir nokkur lög við góðar undirtektir.
 
Mikil ánægja var með þessa kvöldvöku sem heppnaðist mjög vel. Skemmtinefndina skipuðu þær Elísabet Pálsdóttir,Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir, Halla Ingólfsdóttir, Lára Bogey Finnbogadóttir og Ingibjörg Huld Gísladóttir.

Sláturgerð

Í vikunni hafa íbúar Höfða staðið í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 80 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg og augljóst að margir þeirra sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

Létt var yfir fólki við sláturgerðina og augljóst að allir höfðu af þessu gaman. Fyrsta sláturmáltíðin var framreitt á miðvikudaginn, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir

Vökudagar 2013

Í tilefni Vökudaga var opnuð sýning á málverkum Sylvíu Björgvinsdóttur s.l. föstudag. Við opnunina söng sönghópurinn Stúkurnar nokkur lög.  Boðið var upp á léttar veitingar.


Sýningin er opin alla daga meðan á Vökudögum stendur til 9. nóvember nk.


Á sunnudaginn var síðan Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söngkona ásamt Jóni Gunnari Biering Margeirssyni gítarleikara með tónleika í Höfðasal .  Flutt voru íslensk sönglög, má þar nefna lög eftir Sigfús Halldórsson, Pál Ísólfsson, Sigvalda Kaldalóns, Jórunni Viðar og ýmsa fleiri.