Framboðskynning sjálfstæðisflokksins

Frambjóðendur í þremur efstu sætum á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í komandi Alþingiskosningum, þau Einar K.Guðfinnsson, Haraldur Benediktsson og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, heimsóttu Höfða í dag.

 

Þau heilsuðu upp á íbúa, dagdeildarfólk og starfsmenn og ræddu við framkvæmdastjóra um starfsemi heimilisins.

Messað á Höfða

Sr. Eðvarð Ingólfsson messaði á Höfða í gær. Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni þjónaði fyrir altari. Þetta var annasamur dagur hjá þeim því áður hafði Sr. Eðvarð með aðstoð Ragnheiðar fermt tvo hópa fermingarbarna.

 

Messur eru að jafnaði einu sinni í mánuði á Höfða og Ragnheiður djákni er svo með vikulegar helgistundir. Góð aðsókn er að helgihaldinu.

 

Helgi Daníelsson tók myndirnar.

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, makar íbúa, læknar og stjórn Höfða, alls um 170 manns.
Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur bryti og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram og var mikil ánægja með frábæran mat.


Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Gestur kvöldsins var Ásmundur Friðriksson sem sagði gamansögur úr Eyjum, en hann er meðlimur í hrekkjalómafélaginu þar. Gissur Páll Gissurarson sló í gegn með stórkostlegum söng, meðleikari var Sveinn Arnar Sæmundsson. Þá flutti Anton Ottesen ávarp á léttum nótum.


Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga.


Að lokum var dansað við undirleik Bjórbandsins sem hélt uppi miklu stuði til miðnættis.


Höfðagleðin tókst vel að vanda og var mikið stuð á þátttakendum.

Stuð á starfsfólki

Sú hefð hefur skapast hjá starfsfólki Höfða að gera eitthvað skemmtilegt varðandi klæðaburð og útlit í aðdraganda hinnar árlegu Höfðagleði, en hún verður haldin í kvöld.


Þetta gerir mikla lukku hjá íbúum Höfða, en í sumum tilfellum þurftu þeir að spyrja hver væri hver svo góð voru gerfin á starfsfólki í dag.


Á myndinni sést hluti hópsins, f.v. Adda, Ásta Björk, Helga Björg, Ólöf Lilja, Kristín, Kolbrún, Hildur, Guðmunda, Halla, Katrín, Sóley og Elísabet.