Í dag heimsótti stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra Höfða, þau Rannveig Guðmundsdóttir formaður, Unnar Stefánsson, Bernharður Guðmundsson, Dagmar Huld Matthíasdóttir og Helgi Hjálmsson. Með þeim í för voru Ólafur Gunnarsson öldrunarlæknir, Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar og Vilborg Ingólfsdóttir frá Félagsmálaráðuneytinu.
Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða, Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri, Margrét A.Guðmundsdóttir húsmóðir og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri tóku á móti gestunum og sýndu þeim heimilið. Guðjón kynnti þeim starfsemi Höfða og fyrirhugaðar framkvæmdir við stækkun þjónusturýma og lokaða deild fyrir heilabilaða.
Gestir og heimamenn ræddu ítarlega um stækkunarhugmyndir, en fyrir stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra liggur umsókn Höfða vegna næsta framkvæmdaáfanga.