Aðalfundur Höfða

Aðalfundur Dvalarheimilisins Höfða var haldinn 6.júlí s.l. Þar flutti Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2008 og Jóhann Þórðarson endurskoðandi fór yfir ársreikning félagsins og svaraði spurningum ásamt framkvæmdastjóra. Reikningurinn var síðan samþykktur samhljóða.

 

Rekstur Höfða gekk vel á árinu, en uppreiknaðar lífeyrisskuldbindingar hækkuðu mikið.

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. Yfir 40 manns, íbúar Höfða og dagdeildarfólk, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið til Stykkishólms með viðkomu við Gerðuberg. Eftir skoðunarferð um Stykkishólm var haldið á hótelið þar sem boðið var upp á kaffi og glæsilegt hlaðborð af meðlæti. Að því loknu var svo ekið heim með viðkomu við Helgafell og í Borgarnesi og komið heim að Höfða upp úr kl. 19.

 

Hópurinn fékk frábært ferðaveður, logn, sólarlaust og 17 stiga hita. Farið var með nýrri Sæmundarrútu sem tekur hjólastóla, en undanfarin sumur hefur hjólastólafólk þurft að vera í sér bifreið. Er auðvitað skemmtilegra að allir geti verið í sömu rútu. Leiðsögumaður í þessari ferð var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans fróðleg og skemmtileg að vanda.

 

Almenn ánægja var með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.

 

Írskir dagar

Í dag hófust Írskir dagar á Akranesi og stendur hátíðin í 3 daga. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk héldu upp á þetta með útiskemmtun um miðjan daginn. Boðið var upp á léttar veitingar og Jón Heiðar spilaði á harmonikku.

 

Þessi uppákoma tókst í alla staði vel, enda besta veður ársins – logn og 20 stiga hiti.