Helgihald um hátíðarnar

Á aðfangadagsmorgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í samkomusal. Með henni voru afkomendur hennar sem sungu nokkra jólasálma og léku undir á gítar.

 

Á annan jóladag var hátíðarmessa. Sr. Eðvarð Ingólfsson prédikaði og kór Akraneskirkju söng við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar. Ólöf Ásgeirsdóttir söng einsöng.

 

Á gamlársdagsmorgun verður svo helgistund djákna. Þar mun kirkjukór Saurbæjarprestakalls syngja.

Jólaball

Í gær var haldið jólaball fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna Höfða. Andrea Guðjónsdóttir söng jólalögin við undirleik Jólabandsins og jólasveinarnir Bjúgnakrækir og Giljagaur komu í heimsólkn og færðu smáfólkinu gjafir.

 

boðið var upp á smákökur og gos.

 

Jólaballið var mjög vel heppnað og gríðarlega vel sótt.

Höfðafluga

Í haust flutti sá kunni veiði- og fluguhnýtingamaður Kjartan Guðmundsson á Höfða.

 

Fljótlega kom Kjartan sér upp fluguhnýtingaraðstöðu í kjallara Höfða. Í tilefni af því bjó hann til nýja flugu sem hann nefnir HÖFÐI. Flugan hefur þegar slegið í gegn og Kjartan framleiðir hana eftir pöntunum.

 

Eins og sjá má á myndinni er þetta hin fallegasta fluga og enginn vafi á að HÖFÐI mun leggja margan laxinn á komandi sumri.

Gjöf frá nemendum Grundaskóla

Í dag heimsóttu Höfða tveir nemendur Grundaskóla, Matthías Ingi Sævarsson og Snær Halldórsson, og færðu heimilinu fallegan handunninn borðdúk gerðan af nemendum skólans.

 

Nemendur Grundaskóla hafa lengi haft þann góða sið að heimsækja Höfða fyrir hver jól og færa heimilinu hluti gerða af nemendum. Þessir fallegu munir prýða Höfða.

 

Margrét A.Guðmundsdóttir húsmóðir á Höfða veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði strákunum þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.

Hljómur heimsækir Höfða

Hljómur, kór eldri borgara á Akranesi, söng fyrir íbúa Höfða í gær. Stjórnandi kórsins er Katrín Valdís Hjartardóttir, undirleikari Sveinn Arnar Sæmundsson og flautuleikari Sigríður Hjördís.

 

Söngur kórsins fékk góðar undirtektir Höfðafólks sem fyllti samkomusalinn.

Tónleikar Grundartangakórsins

Grundartangakórinn hélt sína árlegu desembertónleika í samkomusal Höfða í gær.

 

Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar þeir Smári Vífilsson og Bjarni Atlason.

 

Þá söng Tindatríóið eitt lag, en tríóið er skipað þeim Atla Guðlaugssyni og sonum hans Bjarna og Guðlaugi. Flosi Einarsson lék undir á píanó.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og hylltu kórinn með lófataki. Grundartangakórinn er í miklu uppáhaldi hjá Höfðafólki, en þess má geta að kórinn hefur sungið reglulega á Höfða í rúman aldarfjórðung.

Barnasöngur á Höfða

5 ára börn af Leikskólanum Vallaseli heimsóttu Höfða í morgun og fluttu söngdagskrá í samkomusal. Þau sungu nokkur gömul og góð lög og enduðu á tveimur fallegum jólalögum.

 

Íbúar Höfða fjölmenntu til að hlusta á krakkana og þökkuðu þeim með öflugu lófataki. Um 50 börn voru í kórnum og var söngur þeirra ótrúlega góður miðað við aldur flytjenda.

 

Að söng loknum var krökkunum boðið upp á Svala og smákökur og runnu veitingarnar ljúft niður.

Raggi Bjarna heimsækir Höfða

Hinn sívinsæli Ragnar Bjarnason heimsótti Höfða í gær og skemmti íbúum heimilisins og starfsfólki með söng og gamanmálum.

 

Skemmtuninni lauk með því að Ragnar og Ása Ólafsdóttir sungu saman Tondeleyo, en Ása var söngkona með hljómsveitum á Akranesi á yngri árum.

 

Samkomusalur Höfða var troðfullur og undirtektir frábærar. Höfðu sumir á orði að Raggi mætti heimsækja Höfða vikulega!