Níu konur úr Soroptimistaklúbbi Akraness heimsóttu Höfða í dag og afhentu heimilinu að gjöf 2 rafknúna hægindastóla (lyftistóla). Þetta eru afskaplega þægilegir stólar sem hægt er að stilla á ýmsa vegu og munu nýtast vel hér á Höfða.
Ingibjörg Sigurðardóttir ávarpaði íbúa og starfsmenn. Hún kynnti klúbbinn og markmið soroptimista sem er að vinna að bættri stöðu kvenna, gera háar kröfur til siðgæðis, vinna að mannréttindum, jafnrétti, framförum og friði.
Soroptimistar skulu beita sér fyrir að veita þjónustu í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi. Hún gerði grein fyrir ýmsum þörfum verkefnum sem klúbburinn hefur staðið að, bæði hér heima og erlendis.
Þá sagði hún að þessi gjöf til Höfða væri í tilefni af 25 ára afmæli klúbbsins.
Ása Helgadóttir afhenti síðan framkvæmdastjóra stólana með gjafabréfi. Guðjón Guðmundsson þakkaði konunum þessa höfðinglegu gjöf og bauð þeim til kaffisamsætis með íbúum og starfsmönnum.