Nýr matreiðslumaður

Bjarni Þór Ólafsson sem verið hefur matreiðslumaður á Höfða s.l. 6 ár hefur nú látið af störfum og hafið eigin rekstur. Íbúar og starfsmenn Höfða þakka Bjarna fyrir góðan mat og frábæra viðkynningu og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

Auglýst var eftir nýjum matsveini og bárust 6 umsóknir. Stjórn Höfða ákvað á fundi sínum í gær að ráða Hauk Sigurð Gunndórsson í starfið. Hann mun koma til starfa á næstunni, en hann hefur s.l. 3 ár starfað við matreiðslu á hjúkrunarheimilinu Eir.

Reyfi 2007

Í gær tók Höfði þátt í norrænu menningarhátíðinni Reyfi 2007 í Norræna húsinu, en auk fjölbreyttra listkynninga var markaður þar sem seldar voru íslenskar heilsu- og náttúruvörur. Var Höfða boðið að kynna þar og selja grjónapokana sem hér hafa verið framleiddir um langt árabil og fyrir löngu sannað ágæti sitt.

 

Emilía Petrea Árnadóttir sá um Höfðabásinn þar sem mikill fjöldi sýningargesta leit við til að fræðast um grjónapokana, starfsemi Höfða og almennt um Akranes.

Grænlenskir gestir

Í gær heimsóttu Höfða 13 íbúar á dvalarheimili aldraðra í Qagortog, vinabæ Akraness í Grænlandi. Gestirnir kynntu sér starfsemi Höfða og litu inn til nokkurra íbúa heimilisins. Grænlendingarnir lýstu mikilli hrifningu á aðbúnaði öllum hér á Höfða. Með þeim í för var Magnús Oddsson fyrrverandi bæjarstjóri sem var leiðsögumaður hópsins í Íslandsheimsókninni.

 

Að lokum bauð Höfði gestunum upp á kaffi og meðlæti.