Laufabrauðsskurður

Í dag settust nokkrir íbúar Höfða að laufabrauðsskurði. Gaman var að fylgjast með handbragði kvennanna, enda flestar þaulvanar laufabrauðsskurði um áratugaskeið. Verkið gekk vel undir röggsamri stjórn Öddu og Svandísar.

Grundartangakórinn á Höfða

Grundartangakórinn söng fyrir íbúa Höfða í gær, en kórinn heimsækir Höfða reglulega við góðar undirtektir.

Söngur kórsins gerði mikla lukku hjá Höfðafólki sem troðfyllti samkomusal heimilisins. Stjórnandi Grundartangakórsins er Atli Guðlaugsson.

Aðventuhátíð

Aðventuhátíð var haldin á Höfða í gær. Sr. Eðvarð Ingólfsson stjórnaði samkomunni. Ræðumaður var Sigríður Kr.Valdimarsdóttir og Guðrún Valdís dóttir hennar lék á píanó Sr. Eðvarð fór með gamanmál og Kammerkór Akraness söng. Að lokum sameinuðust allir viðstaddir í bæn.

Hátíðin var vel sótt af Höfðafólki og tókst í alla staði mjög vel.

Jólahlaðborð

Hið árlega jólahlaðborð Höfða var í hádeginu í dag. Boðið var upp á fjölbreytt úrval gómsætra rétta sem Bjarni kokkur og samstarfsfólk hans í eldhúsinu töfraði fram. Var mikil ánægja með matinn og þjónustuna og át margur yfir sig.