Spilakvöld sjúkravina

Í kvöld var hið mánaðarlega spilakvöld sjúkravina. Þetta er síðasta spilakvöldið að sinni, en ekki er spilað yfir sumartímann.

Sjúkravinum eru færðar þakkir fyrir framlag þeirra til félagslífsins á Höfða.

Höfðingleg gjöf

S.l. laugardag voru 50 ár liðin frá stofnun Lionsklúbbs Akraness. Á hátíðarfundi í tilefni afmælisins færðu Lionsmenn 5 stofnunum og félögum á Akranesi gjafir. Jósef H.Þorgeirsson formaður Lionsklúbbsins afhenti Höfða 250 þúsund krónur að gjöf. Guðjón Guðmundsson þakkaði þessa höfðinglegu gjöf og færði Lionsmönnum hamingjuóskir í tilefni afmælisins. Hann minnti á að Lionsmenn hefðu oft áður fært Höfða góðar gjafir og sýnt heimilinu ræktarsemi og vinsemd. Guðjón sagði jafnframt að gjafir einstaklinga, félaga og fyrirtækja hefðu leitt til þess að Höfði væri eitt best búna dvalar- og hjúkrunarheimili landsins.

Hestamenn í heimsókn

Hestamenn frá Akranesi og nágrenni komu í árlega heimsókn sína á sumardaginn fyrsta og færðu heimilisfólki blóm. Skúli Ketilsson tók við blómunum fyrir hönd heimamanna

 

Landslagsarkitektar heimsækja Höfða

6 íslenskir, sænskir og bandarískir landslagsarkitektar heimsóttu Höfða á sumardaginn fyrsta. Erindi þeirra var að skoða umhverfi heimilisins. Margrét A.Guðmundsdóttir tók á móti þeim. Gestirnir voru mjög hrifnir af Höfða og umhverfi heimilisins. Þær þáðu kaffi og brugðu sér á hestbak með hestamönnum sem koma árlega í heimsókn á Höfða á sumardaginn fyrsta.

Góðir gestir.

Jón Bjarnason alþingismaður NV-kjördæmis heimsótti Höfða í dag. Jón skoðaði heimilið og spjallaði við íbúa og gesti. Með honum í för var Gunnlaugur Haraldsson, en hann sat í stjórn Höfða 1982-1990 og var formaður framkvæmdanefndar þegar 2.áfangi Höfða var byggður.

Tómas níræður.

Tómas Jónsson hélt upp á níræðisafmæli sitt í dag í samkomusal Höfða þar sem mikill fjöldi gesta samfagnaði honum.

Honum eru færðar hamingjuóskir í tilefni dagsins.

Starfslok Bryndísar

Bryndís Guðmundsdóttir hætti störfum í dag eftir tæplega 23 ára starf í eldhúsi Höfða og áður í umönnun. Íbúar kvöddu Bryndísi og færðu henni blóm í þakklætisskyni fyrir góða viðkynningu og elskulegheit.