Kvöldvaka 2017

Hin árlega kvöldvaka þar sem starfsmenn Höfða bjóða íbúum upp á skemmtiatriði og veitingar var haldin í gær. Borð svignuðu undan girnilegum kræsingum sem starfsmenn komu með að heiman og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá.

Edda Júlíusdóttir íbúi á Höfða lék nokkur lög á píanó.  Danshópur sýndi línudans og söngnemendur hjá Sigríði Elliðadóttur söngkennara sungu nokkur lög.

Mikil ánægja var með þessa kvöldvöku sem heppnaðist mjög vel.

Starfsaldursviðurkenningar 2017

Í gær, á kvöldvöku sem haldin var af starfsmönnum fyrir íbúa Höfða, voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 14 starfsmenn viðurkenningu:

Fyrir 5 ára starf: Aðalheiður Alfreðsdóttir, Elísabet Stefánsdóttir, Gerður Guðjónsdóttir, Helga Sigurðarsdóttir og Kolbrún Katarínusardóttir.

Fyrir 10 ára starf: Anna K. Belko og Pálína Sigmundsdóttir.

Fyrir 15 ára starf: Sigurlaug Garðarsdóttir.

Fyrir 20 ára starf: Elísabet Ragnarsdóttir og Hulda Ragnarsdóttir.

Fyrir 25 ára starf: Sigrún Sigurgeirsdóttir.

Fyrir 30 ára starf: Helga Jónsdóttir, Katrín Baldvinsdóttir og Ragnheiður Guðmundsdóttir.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins og sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða.

Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum  á Höfða á síðustu mánuðum eftir farsælan starfsferil, þær Margrét Reimarsdóttir og Helga Dóra Sigvaldadóttir.  Samtals höfðu þær starfað á Höfða í um 16 ára.

Um leið og Kjartan þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil afhenti hann þeim blömvönd og litla gjöf frá Höfða. Kjartan óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

Sumarferð 2017

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í byrjun ágúst mánaðar. Rúmlega 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum.

Lagt var af stað kl. 13 og ekið upp í Borgarfjörð, skoðað búvélasafnið á Hvanneyri. Síðan lá leiðin í Munaðarnes þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð.

Hópurinn ferðaðist undir leiðsgögn Eydísar Líndal Finnbogadóttur og var leiðsögn hennar bæði fróðleg og skemmtileg.

 

Ný bifreið ferðaþjónustu fatlaðra og aldraðra

Í dag fékk Höfði afhenta nýja bifreið fyrir ferðaþjónustu fatlaðra og aldraðra sem Höfði rekur samkvæmt samningi fyrir Akraneskaupstað.

Nýja bifreiðin er af gerðinni Iveco Bus Daily frá BL. Bifreiðin tekur 11 farþega þar af 3 í hjólastólum.

Bifreiðin mun leysa af hólmi eldri bifreið ferðaþjónustunnar sem er frá árinu 2001 og er komin vel til ára sinna.

Það var Sveinn M. Sveinsson sölustjóri hjá BL sem afhenti Kjartani Kjartanssyni framkvæmdastjóra lyklana af nýju bifreiðinni.

Kvennahlaup 2017

Í dag var gengið í fimmta sinn Kvennahlaup ÍSÍ frá Höfða undir styrkri stjórn Maríu iðjuþjálfa, gengið var frá Höfða inn í Leyni og til baka.  Fyrir hlaupið sá Hildur Karen frá ÍA um að stjórna upphitun í Höfðasal. Þátttakendur voru um 40 og skapaðist mikil og góð stemming meðal þátttakanda.   Eftir „hlaupið“ var boðið upp á léttar veitingar í Höfðasal í boði ÍA, en ÍA hefur frá upphafi gefið öllum þátttakendum boli og verðlaunapening. Við á Höfða viljum þakka ÍA sérstaklega fyrir gott samstarf í gegnum árin við kvennahlaupið.

Veðrið lék við alla og var það samdóma álit allra að vel hafi tekist til.

Höfðagleði 2017

Hin árlega Höfðagleði var haldin föstudagskvöldið 10.mars sl.  Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, makar íbúa og stjórn Höfða, alls um 200 manns. Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem eldhús Höfða reiddi fram og var mikil ánægja með frábæran mat.

Samúel Þorsteinsson sá um veislustjórn og söng.  Patrycja Szalkowicz lék á píanó og tveir nemendur hennar úr tónlistarskólanum léku á þverflautu. Síðan söng Hjördís Tinna Pálmadóttir nokkur lög við undirleik Samúels.

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga.

Að lokum var dansað við undirleik nafnlausu hljómsveitarinnar sem hélt uppi miklu stuði fram að miðnætti.

Höfðagleðin tókst vel að vanda og var mikið stuð á þátttakendum.

Stefán Bjarnason 100 ára

Í dag fagnar Stefán Bjarnason fyrrum yfirlögregluþjónn á Akranesi og nú íbúi Höfða 100 ára afmæli sínu. Í tilefni dagsins heimsóttu Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri Höfða Stefán og færðu honum blóm.

Fyrr um morguninn höfðu félagar Stefáns í leikfimishópi á Höfða sungið honum afmælissönginn.

Stefán mun fagna afmælisdeginum með fjölskyldu sinni og vinum.

Íbúar og starfsfólk Höfða óska Stefáni innilega til hamingju með daginn.

Lífeyrisskuldbindingar Höfða heyra sögunni til.

Í dag var skrifað undir samning varðandi útfærslu á yfirtöku ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum Höfða en Höfði er eitt þeirra heimila sem rekið hefur verið á ábyrgð sveitarfélaga.

Samkomulagið nú miðast við að yfirtaka ríkisins á lífeyrisskuldbindingunum verði afturvirk frá 31. desember 2015.

Fyrir Höfða voru þessar skuldbindingar um einn milljarður króna og fara með þessu samkomulagi alfarið út úr ársreikningum Höfða og mun samhliða því lækka lífeyrisskuldbindingar Akraneskaupstaðar sem því nemur.

Við þetta tækifæri vilja stjórnendur Höfða færa sérstakar þakkir til Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra og Ólafs Adolfssonar formanns bæjarráðs fyrir þeirra þátt í því að lífeyrisskuldbindingar Höfða heyra nú sögunni til.