Hjólað óháð aldri

HOA_1

Hjólarar óskast

Nú fer að líða að því að við fáum hjólið okkar fína og þá vantar okkur sjálfboðaliða eða svokallaða hjólara til að hjóla með íbúana okkar. Hjólarar eru oftast úr röðum aðstandenda, starfsmanna og annarra velunnara og munu hjólarar fá kennslu á hjólið og læra hvernig umgangast á hjólið.

Sá sem gerist hjólari er vitaskuld í sjálfsvald sett hversu miklum tíma og hversu oft hann sinnir þessu verkefni. Þeir sem ætla aðeins að hjóla með sinn aðstandenda þurfa að gerast hjólarar til að læra umgengnisreglurnar.

Hugmyndin er að stofna lokaðan Facebook hóp fyrir hjólarana, fólk þarf að vita hvenær hjólið er laust og aðrar praktískar upplýsingar.

Allar góðar hugmyndir um hvernig við getum unnið að þessu verkefni saman vel þegnar.

Áhugasamir hafi samband við:

Lísu sjúkraþjálfara sími: 433 4314 sjukrathjalfari@dvalarheimili.is

Maríu iðjuþjálfa sími: 856 4316 idjuthjalfi@dvalarheimili.is

Sumardagurinn fyrsti

IMG_2460

Á sumardaginn fyrsta var gestkvæmt á Höfða, dagurinn byrjaði á heimsókn félaga úr Hestmannafélaginu Dreyra á fákum sínum.

Karlakórinn Svanir hélt söngskemmtun undir stjórn Valgerðar Jónsdóttur sem jafnframt sá um undirleik ásamt Jóni Trausta Hervarssyni.

Í framhaldi af söngskemmtun var boðið upp á vöflukaffi í umsjón Höfðavina, félags vina og velunnara heimilisfólks á Höfða. Vöflukaffið heppnaðist vel sem og önnur atriði dagsins.

Á laugardaginn kom svo Þjóðdansafélagið Sporið í heimsókn til okkar og sýndi þjóðdansa fyrir heimilisfólk á Höfða. Skemmtunin var vel sótt og var almenn ánægja með hana.

Söngskemmtun

IMG_2438

Sigurður Guðmundsson og Sigurður Ólafsson buðu upp á samsöng í Höfðasal í síðustu viku.

Góður rómur var gerður af framtaki þeirra vina og er beðið í  eftirvæntingu eftir næsta samsöng.

Minningargjöf til Höfða

IMG_2426

Í dag kom Jón Guðjónsson færandi hendi til okkar á Höfða.

Til minningar um eiginkonu sína Sigrúnu Níelsdóttur færði hann heimilinu veglega peningagjöf til kaupa á tæki eða búnaði fyrir starfsemi dagdeildar Höfða.

Við þetta tækifæri vildi Jón færa starfsfólki Höfða innilegar þakkir fyrir umönnun þá og alúð sem Sigrún naut í dagvistun Höfða og átti þátt í að létta henni síðustu æviár hennar.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði fyrir höfðinglega gjöf sem mun nýtast starfsemi dagdeildar vel.

 

Samið við sjúkraliða

Í nótt undirritaði samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga nýjan kjarasamning við Sjúkraliðafélag Íslands. Þar með hefur boðuðu verkfalli sjúkraliða verið afstýrt.

Því verður starfsemi á Höfða með eðlilegum hætti eftir helgi.

Orðsending til aðstandenda íbúa Höfða

Sælir aðstandendur,

Vegna yfirvofandi verkfalls sjúkraliða gæti skapast neyðarástand á heimilinu ef af verkfalli verður, sjúkraliðar eru stór hluti starfsfólks  og óskar því heimilið eftir aðstoð ykkar við umönnun.

Ef af verður mun verkfallið hefjast á mánudaginn 4/4 og er fyrirséð að neyðarástand skapast á kvöldvöktum sem eru frá 15 til 23.  Gott væri ef þið gætuð séð ykkur fært að aðstoða við umönnun ykkar aðstandanda á þessum tíma.  Leyfilegt er samkvæmt Sjúkraliðafélagi Íslands að aðstandandi aðstoði sinn ættingja.

Við óskum þess að ekki komi til þessa verkfalls en við vonumst eftir góðum viðbrögðum frá ykkur við þessari beiðni ef af verkfalli verður.

Virðingarfyllst,

Hallveig Skúladóttir hjúkrunarforstjóri

Bylgja Kristófersdóttir hjúkrunardeildarstjóri

Margrét Vífilsdóttir hjúkrunardeildarstjóri

Gjöf frá Lionsklúbbi Akraness

Ólafur Eyberg Guðjónsson stjórnarmaður í Liknarsjóði Lkl.Akraness afhendir Kjartani framkvæmdastjóra tækið
Ólafur Eyberg Guðjónsson stjórnarmaður í Liknarsjóði Lkl.Akraness afhendir Kjartani framkvæmdastjóra tækið.

Í gærkvöldi var Lionsklúbbur Akraness með félagsfund í Höfðasal og við það tilefni færði klúbburinn Höfða að gjöf SimplyGo ferðasúrefnissíu.

Það var Ólafur Eyberg Guðjónsson stjórnarmaður í Líknarsjóði Lkl.Akraness sem afhenti Kjartani Kjartanssyni framkvæmdastjóra Höfða formlega súrefnistækið.

Í máli Kjartans við afhendinguna kom fram að ferðasúrefnissían auki mjög lífsgæði íbúa Höfða sem þurfa á súrefnisgjöf að halda. Kjartan þakkaði Lionsmönnum fyrir höfðinglega gjöf og þann hlýhug sem fylgir gjöfinni.

Höfðagleði 2016

IMG_2354

Hin árlega Höfðagleði var haldin föstudagskvöldið 4.mars sl.  Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, makar íbúa, læknar og stjórn Höfða, alls um 200 manns. Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem eldhús Höfða reiddi fram og var mikil ánægja með frábæran mat.

Kjartan Kjartansson setti skemmtunina og kynnti Ingibjörgu Pálmadóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem gest kvöldsins og sá hún jafnframt um veislustjórn. Systkinin Ylfa og Hallur Flosabörn spiluðu og sungu nokkur lög.   Bjarni R. Jónsson stjórnaði fjöldasöng og náði upp góðri stemmingu meðal veislugesta.

Kjartan framkvæmdastjóri færði við þetta tækifæri Reyni Þorsteinssyni yfirlækni Höfða smá þakklætisvott fyrir áratuga starf fyrir Höfða en senn líður að því að Reynir láti af störfum sem læknir heimilisins. Reynir hefur verið yfirlæknir Höfða frá því heimilið var opnað í febrúar 1978.

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga.

Að lokum var dansað við undirleik Bjórbandsins sem hélt uppi miklu stuði fram að miðnætti.

Höfðagleðin tókst vel að vanda og var mikið stuð á þátttakendum.

Hjólað óháð aldri – HÓA

HOA_1

Söfnun hafin fyrir hjóli

Þann 17. febrúar kom Sesselja Traustadóttir frá Hjólafærni til að kynna fyrir okkur verkefnið „Hjólað óháð aldri“. Verkefnið byggir á því að rjúfa einangrun og efla lífsgleði íbúa á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim kost að fara út að hjóla. Hjólarar eru skipaðir sjálfboðaliðum úr röðum aðstandenda, starfsmanna og annarra velunnara og munu hjólarar fá kennslu á hjólið og ákveðnar umgengisreglur viðhafðar. Hugmyndin er upphaflega dönsk, og hjólin eru komin í notkun út um allan heim.

Hjólið er með sæti fyrir tvo farþega fyrir framan þann sem hjólar. Það er með litlum hjálparmótor sem styður við í brekkum, þannig að flestir ættu að ráða vel við að hjóla.

Þrjú heimili á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar fengið hjól og bíður fólk spennt eftir að hlýna fari í veðri þannig að það komist út að hjóla. Fleiri heimili á landinu eru að safna fyrir hjólum.

Ákveðið var eftir mjög jákvæðar undirtektir á kynningafundinum að Höfði eignist slíkt hjól, búið er að panta hjólið og ætti það að koma til okkar í byrjun apríl.

Söfnunin er því hafin og hefur söfnunarbaukum verið komið fyrir á öllum deildum Höfða. Einnig er búið að opna söfnunarreikning: Reikningsnr.: 552-14-400204, kt.: 540498-2539.

Þar sem þetta er kjörið samfélagsverkefni er ósk okkar á Höfða að sem flestir leggi hönd á plóg og aðstoði okkur við verkefnið. Margar fjáröflunarleiðir eru til, til dæmis að leita til fyrirtækja í bænum og til líknarfélaga. Margt smátt gerir eitt stórt.

Allar góðar hugmyndir vel þegnar , áhugasamir hafi samband við Maríu idjuthjalfi@dvalarheimili.is eða Elísabetu sjukrathjalfari@dvalarheimili.is

 Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér :

www.hoa.is

https://www.facebook.com/Hj%C3%B3la%C3%B0-%C3%B3h%C3%A1%C3%B0-aldri-425335327661283/?fref=ts

HOA_2