Fagmennska – Umhyggja – Virðing – Gleði

Framtíðarsýn

Hjúkrunar- og dvalarheimilið  Höfði stefnir ávallt að því að vera í fremstu röð meðal hjúkrunarheimila. Markmiðið er að veita íbúum ávallt bestu mögulega þjónustu á hverjum tíma og vera aðlaðandi starfsvettvangur, þar sem hæft starfsfólk er í hverju starfi.  Starfsemi, húsnæði og aðbúnaður allur verður því ávallt háð sífelldri endurskoðun þar sem nýjar hugmyndir og þekkingarþróun verða hafðar að leiðarljósi.

Markmið heimilisins er að hjúkrun og önnur þjónusta sé veitt á faglegan og ábyrgan hátt. Heilsufarsmat þarf að vera heildrænt, hjúkrunaráætlun skráð og háð stöðugri endurskoðun með það að markmiði að auka og viðhalda sjálfsbjargargetu íbúa og getu hans til að laga sig að breyttum aðstæðum. Öryggi íbúa og vellíðan er í fyrirrúmi ásamt því að viðhalda sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þrátt fyrir hrakandi heilsufar og færnitap. Hjúkrun byggist á hjúkrunarfræðilegum kenningum, reynsluþekkingu og þeim ramma sem innri og ytri aðstæður setja heimilinu.

Hugmyndafræði hjúkrunarheimila þarf að taka mið af eftirtöldum þáttum:

  • Að búa heimilismönnum vistlegt heimili þar sem mannréttindi, mannúð og virðing eru í heiðri höfð.
  • Að skapa heimilismönnum öryggi með viðeigandi félagslegum og heilsufarlegum stuðningi.
  • Að veita heimilismönnum alla nauðsynlega hjúkrun, umönnun og læknishjálp.
  • Að styðja og styrkja sjálfsmynd og sjálfræði heimilismanna.

Stuðningur við einstaklinginn skal miða að því að viðhalda getu hans, virkni og færni eins og kostur er með hans eigin þátttöku, hjúkrun, aðhlynningu, þjálfun, læknishjálp og hjálpartækjum og aðstoða hann við að takast á við breyttar aðstæður      (Velferðarráðuneytið,2013, Kröfulýsing að öldrunarþjónustu).