Allir núverandi íbúar Höfða hafa verið full bólusettir gegn COVID-19 og því tímabært að rýmka þær takmarkanir sem hafa verið á heimsóknum hjá okkur.
Hafa verður í huga að starfsmenn hafa ekki verið bólusettir og að nýir íbúar eru að öllum líkindum ekki búnir að fá boð um bólusetningu. Einnig er vert að geta þess að bólusetning veitir ekki 100% vörn gegn COVID-19.
Það hefur áhrif á afléttingu takmarkana ásamt samkomutakmörkunum sem eru úti í samfélaginu hverju sinni. Mikilvægt er að vera á verði vegna hinna ýmsu afbrigða veirunnar sem skjóta upp kollinum og ekki ljóst hvaða áhrif bólusetning hefur á.
Við þurfum því áfram að fara varlega og gæta hvers annars.
Frá og með 2. febrúar 2021:
- Heimilið verður opið fyrir heimsóknir á milli 14:00-17:00 alla daga vikunnar.
- Ekki verður um að ræða tímamörk á heimsóknum innan heimsóknartímans.
- Heimsóknir fara fram í vistarverum íbúans.
- Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir í heimsókn til íbúa á hverjum tíma (undantekningar t.d. ef íbúi er á lífslokameðferð eru gerðar í samráði við stjórnanda heimilis). Yfirmaður getur veitt undanþágu ef:
- íbúi er á lífslokameðferð
- íbúi veikist skyndilega
- um er að ræða neyðartilfelli
- hann metur það svo að nauðsynlegt sé að rjúfa þessa reglu.
- Gestur notar viðurkennda grímu að heiman.
- Gestir eru beðnir að gæta að 2ja metra reglunni og forðast beina snertingu við íbúa og starfsmenn.
- Gestir eru beðnir um að spritta hendur sínar í upphafi heimsóknar og fyrir og eftir snertingu við sameiginlega fleti, s.s. lyftuhnappa, hurðarhúna, handrið o.fl.
- Gestir fara stystu leið beint inn á herbergi íbúans og stystu leið út.
- Óheimilt er að dvelja í sameiginlegum rýmum heimilisins.
- Heimilt er að fara í bíltúra með íbúa og/eða heimsóknir. Íbúar fara að sjálfsögðu eftir almennum sóttvörnum sem gilda í samfélaginu og eru auk þess beðnir um að gæta sérstaklega vel að handhreinsun við komuna til baka á heimilið vegna möguleika á snertismiti og eru ættingjar beðnir um að aðstoða ástvini sína.
- Óskað er eftir því að gestir og ástvinir fari varlega úti í samfélaginu og fara í sýnatöku við minnstu einkenni.
Sem fyrr er mikilvægt að hafa í huga að gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir:
- eru í sóttkví.
- eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).
- hafa dvalið erlendis og ekki liggja fyrir neikvæðar niðurstöður úr tveimur skimunum.
- hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift
- eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
Starfsmenn munu áfram bera grímu við vinnu sína og þurfa að gæta sérstakrar varúðar sín á milli. Áfram verða ákveðin sóttvarnarhólf og gætt verður að handhreinsun og sótthreinsun á sameiginlegum snertiflötum líkt og gert hefur verið allan faraldurinn.
Aðstandendur eru hvattir til að hlaða niður smitrakningarappi Almannavarna.
Aðstandendur eru einnig hvattir til að þiggja bólusetningu gegn COVID-19 þegar þeim býðst hún.
Með vinsemd og virðingu,
Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri
Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri
Sigurlín Gunnarsdóttir húsmóðir