Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Starfsmenn kvaddir.

Í dag kvöddu íbúar og starfsmenn tvær heiðurskonur sem létu af störfum á Höfða á síðasta ári eftir langan og farsælar starfsferil, þær Elsu Guðmundsdóttur sem starfaði rúmlega 13 ár í eldhúsi Höfða og Áslaugu Hjartardóttur sem var hárgreiðslumeistari heimilisins í 22 ár.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ávarpaði þær stöllur, þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil, en báðar voru þær vinsælar og vel látnar af íbúum og samstarfsmönnum á Höfða.Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þær mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

 

Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, formaður stjórnar Höfða, afhenti þeim afsteypu af Grettistaki með áletrun þar sem þeim eru þökkuð góð störf. Hún þakkaði störf þeirra og óskaði þeim velfarnaðar.

 

Þær Elsa og Áslaug þökkuðu íbúum og starfsfólki ánægjuleg samskipti og óskuðu Höfða og þeim sem þar búa og starfa farsældar á ókomnum árum.

Jólaball.

Í dag var haldið árlegt jólaball á Höfða. Geysigóð mæting var á ballið, meiri en nokkru sinni áður. Hinn óviðjafnanlegi Gísli S.Einarsson stjórnaði dansi, söng og leikjum og hélt uppi miklu stuði.

 

Jólasveinarnir Gluggagægir og Kertasníkir komu í heimsókn, sungu, spjölluðu við börnin og gáfu þeim góðgæti.

Fjölmargir íbúar Höfða komu á ballið og glöddust með ungviðinu.

Gjöf frá nemendum Grundaskóla.

Í morgun komu 4 nemendur Grundaskóla og færðu Höfða að gjöf handunninn vasa, gerðan af nemendum skólans. Þess má geta að nemendur Grundaskóla hafa heimsótt Höfða fyrir hver jól í fjölda ára og fært heimilinu fallega hluti gerða af nemendum. Þessar góðu gjafir prýða Höfða.

Höfði færir nemendum Grundaskóla kærar þakkir fyrir þessar góðu gjafir og þann hlýhug sem þeim fylgja.

Jólasöngur.

Í dag sungu Söngsystur, þær Auður Árnadóttir, Friðrika Bjarnadóttir, Hulda Óskarsdóttir og Sigríður Ketilsdóttir, jólasöngva og fleiri falleg lög við
gítarundirleik. Íbúar Höfða troðfylltu samkomusal heimilisins, tóku vel undir sönginn og þökkuðu þessum heiðurskonum með kröftugu lófataki.

 

Laufabrauðsgerð.

Í dag mættu nokkrir íbúar Höfða í laufabrauðsgerð. Greinilegt var að konurnar kunnu vel til verka, enda þaulvanar laufabrauðsgerð um áratugaskeið. Undir röggsamri stjórn Öddu húsmóður á Höfða gekk verkið eins og í lygasögu.

Söngsystur skemmta.

Í gær mættu þær Sigríður Ketilsdóttir, Friðrika Bjarnadóttir, Hulda Óskarsdóttir og Auður Árnadóttir með gítarana og tóku lagið á hjúkrunardeildinni við frábærar undirtektir íbúanna sem sungu fullum hálsi með þeim stöllum. Þessar heiðurskonur, sem meðal Höfðafólks ganga undir nafninu Söngsystur, koma oft á hjúkrunardeildina og eru miklir aufúsugestir. Hafi þær þökk fyrir.

Vel heppnaður höfðabazar.

Mikil aðsókn var að Höfðabazarnum s.l. laugardag. Fjölbreytt úrval góðra muna vakti mikla aðdáun gesta og rokseldist varningurinn. Gestum var boðið upp á molakaffi og sýningu Íslandsbanka á verkum Blaðaljósmyndarafélags Íslands, sem stendur yfir á Höfða þessa dagana.

Kökukvöld.

Hið árlega kökukvöld var haldið á Höfða í gærkvöldi. Þar koma starfsmenn með kökur og annað góðgæti að heiman og bjóða íbúum hússins til veislu. Voru veitingar sérlega glæsilegar. Margt var til gamans gert; gamanmál, tónlistarflutningur, danssýning og tískusýning þar sem heimilisfólkið var í aðalhlutverki. Þá lék Gísli Einarsson á harmonikku og stjórnaði fjöldasöng. Þessi skemmtun tókst frábærlega, var mjög vel sótt af íbúum og starfsfólki sem skemmtu sér vel. Þetta árlega boð starfsmanna lýsir vel þeim góða anda sem ríkir á Höfða og þeirri vináttu sem er milli starfsmanna og íbúa hússins.

Sláturgerð.

Í gær og í dag hafa íbúar og starfsmenn Höfða staðið í sláturgerð. Tekin voru 120 slátur. Mikill kraftur var í sláturgerðinni og fagmannleg handtök, enda margir sem tekið hafa slátur á hverju hausti í áratugi. Létt var yfir mannskapnum við sláturgerðina og greinilegt að fólk hafði gaman af þessu verkefni. Fyrsta sláturmáltíðin verður svo reidd fram á morgun.

Ásmundur kvaddur.

Stjórn Höfða bauð íbúum og starfsmönnum til samsætis s.l. föstudag til heiðurs Ásmundi Ólafssyni fyrrv.framkvæmdastjóra Höfða og Jónínu Ingólfsdóttur konu hans. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar Höfða ávarpaði Ásmund og þakkaði honum vel unnin og farsæl störf í 24 ár. Þá færði hún honum að gjöf frá Höfða málverk af Innsta-Vogi, en fjölskylda Ásmundar átti Innsta-Vog í áratugi.

 

Þá færði Ásmundur Höfða að gjöf mynd af móður sinni, Ólínu Ásu Þórðardóttur og Svövu Finsen á unglingsárum en Ólína Ása er elsti íbúi Höfða, tæplega 98 ára gömul.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða þakkaði Ásmundi fyrir lipurð við framkv.stjóraskipti og hve góðu búi hann skilar.

 

Nokkrir íbúar Höfða tóku til máls og þökkuðu Ásmundi góð kynni, þau voru Elín Frímannsdóttir, Eggert B.Sigurðsson, Skúli Þórðarson og Stefán Bjarnason.

 

Þá var flutt ávarp frá Valgarði L.Jónssyni. Flutt var tónlistaratriði undir stjórn Patrycju B.S.Mochola tónlistarkennara, sem starfaði á Höfða í sumar. Boðið var upp á góðar veitingar sem Bjarni Þór Ólafsson bryti og hans fólk hafði útbúið af alkunnri snilld.

 

Í þessu kveðjuhófi kom glöggt fram sá mikli hlýhugur sem fólkið á Höfða ber til Ásmundar Ólafssonar.