Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, læknar og stjórn Höfða, alls um 170 manns.
Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur bryti og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram.
Guðjón setti skemmtunina og tilnefndi Anton Ottesen sem veislustjóra. Ásmundur Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri flutti hvatningarávarp, Guðrún fótaaðgerðafræðingur og Guðný hárgreiðslukona fluttu létt skemmtiatriði við undirleik Sigríðar Ketilsdóttur, Jóhannes Kristjánsson fór á kostum í gamanmálum og Karlakórinn Pungur söng nokkur lög.
Margrét A.Guðmundsdóttir og Kristján Sveinsson stjórnarformaður stjórnuðu happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns, Kjarnafæðis og Íslensk Ameríska.
Að lokum var dansað við undirleik hljómsveitarinnar Egg og Bacon sem hélt uppi miklu stuði til miðnættis.
Höfðagleðin þótti takast sérlega vel að þessu sinni og voru þátttakendur hæstánægðir með veitingar, skemmtiatriði og músik.