Höfðinglegur arfur.

Hjónin Andrés Andrésson og Kristgerður Þórðardóttir, Skagabraut 25, arfleiddu Dvalarheimilið Höfða að öllum sínum eignum (íbúðarhúsi, innbúi og bankainnistæðum). Arfurinn rennur í gjafasjóð Höfða og verður notaður til kaupa á nauðsynlegum tækjum og búnaði sem koma mun íbúum heimilisins til góða. Höfðinglegar gjafir velunnara Höfða í gjafasjóðinn á undanförnum árum hafa nýst mjög vel og eiga stóran þátt í því að Höfði er eitt best búna dvalarheimili landsins.

 

Andrés Andrésson fæddist á Hamri í Múlasveit í A-Barðastrandasýslu 28.júní 1925. Hann lést 22.apríl 2003. Andrés var starfsmaðurSementsverksmiðjunnar til starfsloka. Hann var orðlagður völundur í höndunum og hafði að aukastarfi smíði húsgagna, rokka o.fl.

 

Kristgerður Þórðardóttir fæddist á Ásmundarstöðum í Rangárvallasýslu 30.ágúst 1922. Hún lést 23.desember 2005. Kristgerður starfaði við fiskvinnslu um langt árabil.

 

Hún var mikil hannyrðakona og nutu þeir hæfileikar hennar sín vel í dagvistinni á Dvalarheimilinu Höfða sem hún stundaði reglulega síðustu árin og líkaði vel.

 

Stjórn Höfða, starfsfólk og íbúar minnast þessara heiðurshjóna með hlýhug og þakklæti fyrir einstakan höfðingsskap.